Tuesday, March 2, 2010

Jæja gott fólk, þið verðið að afsaka hversu slöpp við höfum verið við að blogga en hér kemur það.

Síðast þegar við létum í okkur heyra vorum við u.þ.b að fara að kaupa mótorhjól. Það gekk í gegn og við urðum stoltir eigendur að Royal Enfield Electra mótorhjóli. Fyrir áhugasama hefur það 350 rúmsentimetra einsstrokks vél sem framleiðir heil 18 hestöfl. Hjólið er nánast nýtt, það er ekið 5000 km og í mjög góðu standi.


Nokkru áður en að við keyptum hjólið höfðum við farið til Bangalore og keypt hlífðarbúnað. Það eina sem enn vantaði voru hjálmar. Daginn eftir að við keyptum hjólið fundum við 2 frekar ljóta hjálma. Við vorum svo óþreyjufull að komast af stað að okkur var eiginlega sama.

Síðan þá höfum við keyrt tæpa 2000 km. Við fundum mjög gott vegakort og höfum oftast reynt að velja smærri og fáfarnari vegi. Það hefur gefist mjög vel þar sem við höfum heyrt margar sögur af hrikalegri og jafnvel stórhættulegri umferð á Indlandi. Þeir vegir sem við höfum valið að keyra liggja oft um smærri þorp, fjöll og frumskóga. Við stoppum reglulega til að kaupa vatn eða spyrja til vegar og stundum hrúgast fólk í kringum okkur og spyrja okkur allskonar spurninga og við gerum okkar besta til að reyna að svara þeim.



Dæmigert samtal gæti verið svona:

Indverji: What is your good name?
Ég: Loftur
Indverji: Which place you come from?
Ég: Iceland
Indverji: Ahh, Ireland
Ég: No, Iceland
Indverji: Ahh, Iceland. Very cold country. India not hot for you?
Ég: Its ok.
Indverji: This your wife? You children? (bendir á Sigrúnu)
Ég: No only friend. (Við erum orðið langþreytt á að reyna að útskýra millistigið milli vina og hjóna)
Indverji: How long you stay India?
Ég: 4 and a half months
Indverji: Wow long time. What is your occupation?
Ég: Student.
Indverji: Student???

Og síðan heldur samtalið áfram að ég hafi tekið frí frá skólanum til að vinna og síðan ferðast um Indland en að ég ætli að halda áfram þegar ég fer til baka o.s.frv.

Við Sigrún lendum í mörgum svona samtölum á hverjum degi, og það góða er að stundum leiða þau til þess að manni er bent á áhugaverða staði, góðan stað til að gista á eða eitthvað álíka.


Það góða við að ferðast á mótorhjóli er að maður getur stoppað þar sem maður vill, öfugt við rútur og lestir. Þær keyra frá einum stað til annars nánast streitulaust og maður hefur engin tækifæri á að stoppa ef maður sér eitthvað áhugavert. Á mótorhjólinu höfum við valið að keyra um þjóðvegi, malarvegi og jafnvel moldarvegi, og höfum þar af leiðandi séð ótrúlega náttúru og hitt fólk sem býr á afskekktustu stöðum. Við höfum keyrt í gegnum frumskóga, yfir 2500 metra háa fjallgarða, séð endalausar breiður af hrísgjrónaökrum, banana- og kókostrjám, te- og kaffiplantekrum. Þið getið ekki skilið hverju "næs" það er, fyrr en þið prófið það, að vera búinn að keyra lengi, vera svangur og þreyttur og ákveða þá að taka klukkutíma eða tvo í að stoppa á fáförnum stað, slengja upp hengirúminu milli tveggja trjáa, éta einhverja ávexti og nammi sem maður keypti um morguninn og blunda síðan í hengirúminu. Vakna síðan endurnærður og halda áfram. Það er ólýsanlega "næs".


Til að þið fáið smá tilfinningu um hvað hefur gerst hjá okkur síðustu daga, þá ætla ég að telja upp nokkra eftirminnilega hluti.

Leiðin í gegnum frumskóginn milli Karwar og Yellapur.
Hér keyrðum við í nokkra tíma frekar slæman veg sem lá í hlykkjum meðfram ám, í fjallshlíðum og yfir læki. Það var þéttur og þykkur frumskógur og við sáum ekki sálu á leiðinni. Frábær leið. Í Yellapur hittum við Íraelskt par sem var að keyra milli sömu staðanna en hafði valið þjóðveginn. Þau lentu í endalausum röðum af vörubílum, rútum og öðrum ökutækjum. Þegar þau loks komust til Yellapur voru þau örmagna af þreytu og kolsvört af útblæstris-sóti.

1 : Gististaðirnir okkar í borgunum Yellapur, Sirsi, Shimoga og Hassan.
Yellapur og Sirsi: Lítil og "basic" herbergi, með holu í staðinn fyrir klósett, fötu í staðinn fyrir sturtu og puttaför á veggjum í staðinn fyrir málningu. Samt einhve
rnveginn................ kósí.
Verð: 300 kreppukrónur.
Shimoga og Hassan:
Margra stjörnu svítur með sjónvarpi, síma, loftkælingu, herbergisþjónustu en umfram allt starfsfólki sem beinlínis krafðist þess að fá ríkulegt þjórfé
.
Verð: 2000 kreppukrónur.

2. Fjallaþorpin Ooty og Munnar.
Lítil og krúttleg fjallaþorp sem liggja í yfir 2000 metra hæð. Þetta eru staðirnir þar sem breskir nýlenduherrar byggðu sér sumarleifishús því hér er loftið svalt. Frekar svona eins
og þægilegt evrópskt loftslag en brennandi indverkst. Vegirnir í þessum þorpum liggja allir í hlykkjum til að sveigja hjá hólum og hæðum og eru þ.a.l mjög skemmtilegir í keyrslu. Í Ooty leigðum við sjúskaðan hjólabát og fórum að sigla á vatninu sem liggur í miðjum bænum. Einnig keyrðum við upp á hæsta tindinn sem heitir Doddabetta og þar á að vera hægt að sjá 80 km í allar áttir. Þegar við fórum var hins vegar skýjað og maður sá ekki rassgat. Skömmu eftir að við komum til baka í gististaðinn okkar fór að rigna. Og þvílík úrhellis rigning. Ég hef sjaldan séð jafn stóra regndropa á ævi minni. Það var áhugavert en lokaði mann inni það sem eftir var. Þannig að við fórum inn í herbergi að spila Tetris og hlusta á "Stúlkan sem lék sér að eldinum" af Ipod-inum.



3. Allt hitt
Stíflan milli Karwar og
Yellapur, sundlaugagarðurinn í Coimbatore, höllin í Mysore, græni plantekrudalurinn í Munnar, bognu trén nálægt Jog fossunum, strákana með 50 ára gamla hermótorhjólið, hengirúmin í hádegispásunni. Ég gæti haldið áfram endalaust.


Að lokum ætla ég að birta mynd af planinu okkar eins og það er í augnablikinu.


Grænu punktarnir á myndinni tákna staði sem við höfum heimsótt. Rauðu línurnar eru leiðir sem við ætlum að keyra og gulu línurnar er leiðir þar sem við hendum hjólinu og sjálfum okkur upp í lest. Ef við hefðum meiri tíma myndum við sennilega keyra alla leið en vegalengirnar hér eru bara svo miklar.

Núna erum við á stað sem heitir Allapey. Hægt og rólega ætlum við að fikra okkur suður á bóginn. Næsti áfangastaður verður ströndin Varkala. Etir það heimsæknum við syðsta odda Indlands, Kanyakumari. Upp austurhluta Indlands til borgarinnar Chennai. Lest til norð-austurs. Hrísgjrónahéraðið Assam sem á þann vafasama heiður að vera blautasta svæði á Jörðinni. 12 metra úrkoma á ári. Fjallahéruðin Arunachal Pradesh og Sikkim. Arunachal Pradesh hefur lengi verið lokað túristum og það þarf sérstakt leyfi til að fara þangað. Sjáum til hvernig fer. Sikkim verður fyrsti staðurinn þar sem við snertum Himalaya fjöllin. Frá öllu héraðinu á að vera hægt að sjá fjallið Kangechenjunga, þriðja hæsta fjall veraldar, 8586 metra hátt. Aftur skellum við okkur í lestina til höfuðborgarinnar Delhi. Keyrum til Agra og skoðum Taj Mahal. Maður fer nú varla til Indlands án þess að sjá það. Keyrum síðan í vestur í Thar eyðimörkina í Rajastan og skoðum bláu húsin í Jodpur og virkið í Jaisalmer. Förum aftur til Delhi og keyrum, ef veður leyfir í norður til Kasmír&Jammu héraðs. Höldum okkur í Ladakh í austur Kasmír þar sem er ekkert vesen. Keyrum vonandi yfir hæsta veg í heimi sem liggur yfir Khardung La heiðina í 5359 metra hæð. Reynum að selja hjólið í Manali eða Delhi, tökum lestina til baka til Mumbai og fljúgum heim, vonandi búin að slökkva ferðaþránna fyrir fullt og allt.





1 comment:

  1. Þetta er svo hrikalega spennandi að ég ræð varla við mig.
    En gaman að lesa líka frá þér Loftur, eða mér finnst eins og ég hafi bara lesið blogg frá Sigrúnu hingað til:)
    Myndirnar ykkar eru æðislegar og planið ykkar líka alltof spennandi!!
    Ég mun apa þetta eftir ykkur einn daginn, finnst eins og svona eigi bara að gerast í bíómyndum.
    Er búin að deila þessari síðu með múttu minni Sigrún, þau eru svo veik í svona ferðalög:)
    En langar líka að vita afhverju var þetta hérað lokað fyrir túrista?

    Ok frekar langt komment, en líka frekar langt síðan við heyrðumst beib:)
    Hafðu það gott.
    Knús Svana.

    P.S er að spá í þessu kommentaleysi á síðunni, þurfið að fara í stillingar og setja að "anonymous" geti kommentað líka. Því annars er svo mikið vesen að kommenta.

    ReplyDelete