Tuesday, March 23, 2010

Húsbátur og Yoga

Alleppey. Lonely Planet bókin segir að staðurinn sé nokkurs konar smækkuð útgáfa af Feneyjum. Ég hef ekki komið til Feneyja en ég held að mig langi heldur ekki ef sá staður líkist að einhverju leiti skítuga og óspennandi Alleppey. En ef maður skoðar nágrenni bæjarins þá léttir strax yfir manni. Alleppey er nefninega umkringt af seiðandi vötnum og skurðum sem í langan tíma hafa þjónað íbúm Vestur-Kerala sem einhverskonar þjóðvegir. Það er svolítið erfitt að lýsa hvernig þetta svæði er. Ég veit ekki hversu stórt þetta er að flatarmáli, en ímyndið ykkur flatt svæði, sem samanstendur aðallega af hrísgrjónaökrum og þorpum. Í staðinn fyrir að þorpin eru tengd saman með vegum úr tjöru og gróti, þá liggja vatnsfylltir skurðir þvers og kruss um svæðið, og fólk notar báta í staðinn fyrir bíla til að komast í kirkju, á markað eða í skólann. Skurðirnir eru lífæð svæðissins. Fólk notar þá ekki einungis til að komast á milli staða heldur líka til að veiða fisk, baða sig í, sem skólp, ruslahaug og jú, sumir meira að segja drekka úr skurðunum.

Þessu öllu komumst við að þegar við leigðum okkur húsbát. Í Alleppey hittum við nefnilega ástralskt par, og í sameiningu prúttuðum við niður verð fyrir leigu á húsbát. Bátnum fylgdi 3 manna áhöfn. Skipstjóri, kokkur og einn annar sem virtist ekki hafa neitt ákveðið verkefni og ég skildi eiginlega aldrei af hverju hann var þarna. Innifalið í verðinu sem við sömdum um voru 3 máltíðir á dag.




Fátt markvert gerðist í þessari ferð, en það var kannski líka það sem við vonuðumst eftir. Því í 3já daga gerðum við ekkert annað en að liggja í leti, spjalla, spila, éta og drekka bjór, meðan við í rólegheitum sigldum um vötn og skurði.

Það atvik sem mér er eftirminnilegast gerðist annað kvöldið okkar, þegar við stukkum í vatnið. Formálinn að því var að eftir að skipstjórinn lagði bátnum við skurðbakka einn, sá ég, nálægt mér tvo menn á spjalli. Þeir sátu nálægt bakkanum og í vatninu við hliðina á þeim var einhvers konar kanó. Íslenska orðið yfir kanó þekki ég ekki. Ég gaf mig á tal við þá og spurði hvort ég mætti ekki fá kanó-inn í láni í smástund. Þeir játtu og ég gerði mig kláran til að stíga um borð. Ég hef þónokkrum sinnu áður róið bæði í kanó og kæjak og hélt að þetta yrði leikur einn. En um leið og ég hafði komið mér fyrir í bátnum , áttaði ég mig á að þessi bátur var öðruvísi. Hann var ævintýranlega "óstabíll". Með árina í báðum höndum studdi ég mig við bakkan og náði að halda mér uppréttum í nokkrar sekúndur. En þar sem ég þrýsti árinni í bakkann, fór mig að reka hægt og rólega frá honum og allt í einu uppgötvaði ég að ég var kominn 3 metra frá landi og sveiflaði árinni upp og niður til að halda jafnvægi, líkt og óreyndur línudansari. Ég áttaði mig fljótlega á hinu óumflýjanlega og hugsaði með mér að ég var heppinn að vera ekki með Ipod-inn eða peningaveski og passa innan á mér. Skömmu seinna var ég að hamast við að skófla vatni úr bátnum, rennblautur og heyrði hlátrasköllin í Sigrúnu og ástralska parinu. Þau höfðu sennilega heyrt mig hrópa "shitt!" áður en ég steyptist í vatnið. Parið var ekki lengi að skella sér útí líka, og eftir að ég var búinn að fullvissa Sigrúnu um að ég hefði ekki séð krókódíl eða önnur grunsamleg dýr nálægt, stakk hún sér útí plöntugrænt vatnið.




Eftir bátaævintýrið ákváðum við Sigrún að prófa yoga. Yoga er upprunnið á Indlandi, að því er ég best veit, og því þótti okkur tilvalið að skella okkur þegar nokkrir vinir okkar sögðu okkur frá stað þar sem það er kennt.

Yogasetrið heitir því þjála nafni, Sivananda Yoga Vedanta Dhanwantari Ashram. Sivananda var karlinn sem stofnaði setrið, orðið yoga þarf ég ekki að útskýra, Vedanta Dhanwantari hef ég ekki hugmynd um hvað þýðir, og er eiginlega líka slétt sama. Ashram þýðir setur þar sem fólk sefur og borðar, milli þess sem það stundar yoga. Þetta er því einskonar yoga........... kommúna. Á þessum stað vorum við í eina viku, og ég verð að segja að ég veit ekki hvort ég sé feginn að þetta sé búið eða ekki. Leyfið mér að útskýra hvernig venjulegur dagur fór fram.

5:20 Vakning. Já þetta er ekki villa. 5:20 og þá erum við að tala um morgun. Þið getið ímyndað ykkur hversu erfitt þetta var fyrir mig. Nei í alvöru, ég er í fríi en ekki í vinnu.

6:00 Meditation & chanting. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að þýða þessi orð, en ég held að íhugun og uml gætu passað vel. Ef einhver veit um betri þýðingu, má viðkomandi láta mig vita. Eins og það sé ekki nógu erfitt að vakna, þá þarf maður í heilan einn og hálfan tíma að fyrst sitja á steypugólfi(reyndar með mottu)með krosslagða fætur og íhuga. Ef ég skildi hugtakið rétt þá þýðir það að sitja hreyfingarlaus með lokuð augun og tæma hugann, þ.e. að hugsa um ekki neitt. Það er mun erfiðara en það virðist. Síðan er það uml-ið. Forsprakki seturssins situr þá á sviði og raular forna söngva á sanskrit-máli og ég, Sigrún og hitt fólkið endurtökum í kór.

8:00 Yoga tími. Kennarinn sýnir ýmsar vöðvaæfingar og teyjur og við lömbin hermum eftir. Æfingarnar voru fínar fyrir mig. Þær snerust mest um að styrkja ákveðna vöðva. Teyjurnar voru annað mál. Ég veit að þið eigið erfitt með að trúa því en ég er ljósár frá því að geta talist liðugur. Venjulega þegar ég tek þátt í einhvers konar hóp-æfingum, hvort sem það reynir á hausinn eða líkamann, þá get ég alltaf sætt mig við að vera meðalgóður, þ.e. það eru einhverjir sem eru betri en ég og einhverjir sem eru slakari. Í teyjuæfinugum er ég á botninum. Þegar t.d. kemur að því að sitja á gólfinu með krosslagða fætur og halla sér fram án þess að beygja bakið, þá á ég fullt í fangi með það fyrsta, að krossleggja fætur. Ef það tekst þá beina þeir meira upp en til hliðar eins og þeir eiga að gera. Og úr því að það er svo, þá finnst mér ég stanslaust vera að detta aftur fyrir mig. Lausn mín við því er auðvitað að halla mér fram. Það get ég hins vegar ekki nema að beygja bakið í keng, því annars drepainnanlærisvöðvarnir mig úr teyjusársauka. Niðurstaðan er því sú að ekki einungis lít ég kjánalega út, heldur er ég líka að gera æfinguna kolvitlaust.

10:00 Brunch, þ.e. morgun/hádegismatur. Úff, búinn að gera allar þessar æfingar sársvangur og loksins er matur. En auðvitað er hann ekki eins og maður er vanur. Í fyrsta lagi er maturinn "vegetarian". Þeir sem þekkja mig vita að ég elska kjöt og vita því hvað mér finnst um "vegertarian" mat almennt. Í öðru lagi er maturinn borðaður með höndunum en ekki hnífapörum. Allt í lagi, ég er ekki vanur því en það sleppur svosum. Í þriðja lagi situr maður ekki á stól heldur á mottu á gólfinu. Og það er ætlast til að maður sitji með krosslagða fætur og halli sér fram til að ná í matinn. Ég lýsti því hér að ofan hversu vel það hentar mér. Í fjórða lagi er bannað að tala meðan maður borðar. Rökin fyrir því eru að maður sé ekki að sóa mikilvægri orku í tal, heldur geymi hana í yoga-æfingar, íhugun og uml.

Allt það sem talið er upp hér að ofan fellur þó í skuggan af því að maturinn er bara hreint út sagðt bragðvondur. Það er ekki flóknara en það. Ein af ástæðunum gæti verið sú að hvítlaukur og venjulegur laukur er bannaður í setrinu. Ekki spyrja mig um ástæðuna. Það er reyndar fleira sem er bannað. Það t.d. bannað að stunda kynlíf innan setursmarkanna. Símar eru bannaðir. Það er mælt með að fólk lesi ekki aðrar bækur en þær sem að einhverju leiti fjalla um yoga. Það er "dress-kóði" á svæðinu. Helst má ekki sjást í axlir og hné hjá körlum og alls ekki hjá konum. Tóbak, áfengi, eiturlyf og gæludýr eru ekki leyfð. Sérstakt leifi þarf til að yfirgefa kommúnuna.

En áfram með smjörið.

11:00 Karma yoga. Hljómar spennandi. Raunin er reyndar sú að þetta er bara flott orð yfir leiðinlega vinnu. Þetta snýst um að maður geri öðrum greiða án þess að heimta neitt í staðinn til að maður fái betra "karma" í næsta lífi. Sá greiði sem ég þurfti að gera vara að tæma ruslatunnurnar á kvennavistinni. Það var ekki mjög smekklegt. Indverjar og ég líka, við notum nefnilega hendurnar ásamt vatni á afturendann á okkur þegar við höfum lokið okkur af á klósettinu. Þetta hefur þær afleiðingar að klósettin hér eru ekki vön að fá í sig skeinipappír frá túristum og stíflast, og því þarf maður, ef maður notar pappírinn, að henda honum í ruslið. Þetta var ruslið sem ég tæmdi. Ég gekk með tunnurnar niður brekku að stað þar sem það var brennt. Áður en að það var brennt kom samt við sögu verkamaður sem flokkaði ruslið, ýmist með priki eða bara með berum höndum. Algengustu flokkarnir fannst mér vera:

1. Vatnsflöskur(tómar)
2. Skeinipappír(notaður)
3. Dömubindi og túrtappar(notaðir)

Hmm........ skemmtileg vinna. Ef það er satt að þessi vinna stuðli að farsælla næsta lífi, þá hlýtur ruslaflokkunarverkamaðurinn að eiga von á góðu.

14:00 Kennslustund. Fyrsta tímann kenndi fyndinn indverskur ayurveda læknir. Ayurveda lækningar eru að ég held mjög skildar náttúrulækningum. Sumir vita eflaust hvaða álit ég hef á þeim. Fræðin á bak við ayurveda lækningar er þessi. Þú fellur í einn af þremur flokkum:

1. Vata. Ef ég man rétt þá eru þeir sem lenda í þessum flokki æstir, jafnvel ofvirkir og byrja á mörgu en klára fátt. Skv. lækninum eru þetta þeir sem troða sér fram í röðum og keyra yfir á rauðu ljósi. Vindur og loft eru einkennishlutir þessa hóps.

2. Pitta. Mig minnir að þetta sé fólkið sem er draumkennt og tilfinningamikið. Einkenni hópsins er eldur. Af því að eldur er einkenni þessa hóps, og eldur er heitur, þá má þetta fólk ekki borða kryddaðan mat því kryddaður matur er heitur og þá raskast hitajafnvægið.

3. Kapha. Rólegt og mysterískt fólk. Einkenni eru vatn og jörð.

Það er mjög einfalt skv. lækninum að finna út hvaða flokk maður tilheyrir. T.d. er maður kapha ef maður getur náð að láta þumal og litla fingur hægri handar snertast utan um úlnið vinstri handar. Einnig er maður kapha ef þumall er teygður inn að lófa handar og þumallinn nær lengra en litli fingur. Svipaðar aðferðir eru fyrir hina flokkana. Þegar búið er að finna flokkin eru til listi yfir læknisaðferðir fyrir hvern flokk.

Ég verð að segja að ég efa að ég myndi vilja láta lækna mig af þessum lækni, væri ég t.d. með sprunginn botnlanga eða nýrnasteina eða eitthvað álíka.


Eftir kennslustundina endurtekur prógrammið sig síðan.

15:30 Yoga tími
18:00 Kvöldmatur
20:00 Íhugun og uml
22:30 Háttatími

Svona var dagskráin í grófum dráttum.

Ég tel mig vera skynsaman dreng. Það þarf rök til að sannfæra mig um hluti. Það er margt í yoga sem "meikar alls ekkert sens". Ég afneita t.d. algerlega ayurveda lækningunum. Bænir og guðadýrkun eru hluti af yoga. Þar sem ég tel slíkt falla undir einhverskonar trúarbrögð, þá afneita ég því líka. En ég verð að segja að í lokin naut ég þess stundum að hafa reglur. Ég naut þess að vakna fyrir sólarupprás. Ég naut þess að stunda íhugun og reyna að hugsa ekki um neitt. Það er róandi. Ég naut þess að gera æfingarnar og teyjurnar. Nú get ég setið með krosslagðar lappir í meira en hálfa mínútu án þess að bakið sé í keng. Á heildina litið held ég að við Sigrún nutum þess að vera í þessari yoga-kommúnu. Við kynntumst fullt af skemmtilegu og merkilegu fólki. En við erum líka fegin að þetta sé búið. Nú sofum við ekki lengur í aðskildum karla - og kvennavistum og nú getum við aftur faðmast og gert það sem pör gera. Því allt svoleiðið var auðvitað bannað.


P.s. Þegar Sigrún las þennan texta yfir áður en ég setti hann á netið, uppgötvaði hún að það vantar heila viku í textann. Eftir húsbátinn fórum við á strönd sem heitir Varkala og er alveg yndislegur staður. Fólk gistir uppi á kletti og síðan er vegur niður að ströndinni. Meðan við vorum í Varkala eignuðumst við fullt af skemmtilegum vinum. Sumir þeirra fóru með okkur í Yoga setrið og aðra eigum við eftir að hitta aftur þegar við förum til norður-Indlands. Með þessu fólki syntum við í frábærum öldum, spiluðum strandblak og drukkum bjór og heimalagaðan móhító. Þetta var frábær tími. Ég var klaufi að gleyma þessari viku í blogginu en svona er lífið.


Meira P.s. Við erum búin að breyta stillingunum á síðunni þannig að það er auðveldara að "kommenta". Nú þarf ekki lengur að gera sér "prófíl" heldur er hægt að "kommenta" sem "anonymous". Takk fyrir ábendinguna Svana:)

Fleiri myndir er hægt að nálgast á Facebook-inu hennar Sigrúnar.

Tuesday, March 2, 2010

Jæja gott fólk, þið verðið að afsaka hversu slöpp við höfum verið við að blogga en hér kemur það.

Síðast þegar við létum í okkur heyra vorum við u.þ.b að fara að kaupa mótorhjól. Það gekk í gegn og við urðum stoltir eigendur að Royal Enfield Electra mótorhjóli. Fyrir áhugasama hefur það 350 rúmsentimetra einsstrokks vél sem framleiðir heil 18 hestöfl. Hjólið er nánast nýtt, það er ekið 5000 km og í mjög góðu standi.


Nokkru áður en að við keyptum hjólið höfðum við farið til Bangalore og keypt hlífðarbúnað. Það eina sem enn vantaði voru hjálmar. Daginn eftir að við keyptum hjólið fundum við 2 frekar ljóta hjálma. Við vorum svo óþreyjufull að komast af stað að okkur var eiginlega sama.

Síðan þá höfum við keyrt tæpa 2000 km. Við fundum mjög gott vegakort og höfum oftast reynt að velja smærri og fáfarnari vegi. Það hefur gefist mjög vel þar sem við höfum heyrt margar sögur af hrikalegri og jafnvel stórhættulegri umferð á Indlandi. Þeir vegir sem við höfum valið að keyra liggja oft um smærri þorp, fjöll og frumskóga. Við stoppum reglulega til að kaupa vatn eða spyrja til vegar og stundum hrúgast fólk í kringum okkur og spyrja okkur allskonar spurninga og við gerum okkar besta til að reyna að svara þeim.



Dæmigert samtal gæti verið svona:

Indverji: What is your good name?
Ég: Loftur
Indverji: Which place you come from?
Ég: Iceland
Indverji: Ahh, Ireland
Ég: No, Iceland
Indverji: Ahh, Iceland. Very cold country. India not hot for you?
Ég: Its ok.
Indverji: This your wife? You children? (bendir á Sigrúnu)
Ég: No only friend. (Við erum orðið langþreytt á að reyna að útskýra millistigið milli vina og hjóna)
Indverji: How long you stay India?
Ég: 4 and a half months
Indverji: Wow long time. What is your occupation?
Ég: Student.
Indverji: Student???

Og síðan heldur samtalið áfram að ég hafi tekið frí frá skólanum til að vinna og síðan ferðast um Indland en að ég ætli að halda áfram þegar ég fer til baka o.s.frv.

Við Sigrún lendum í mörgum svona samtölum á hverjum degi, og það góða er að stundum leiða þau til þess að manni er bent á áhugaverða staði, góðan stað til að gista á eða eitthvað álíka.


Það góða við að ferðast á mótorhjóli er að maður getur stoppað þar sem maður vill, öfugt við rútur og lestir. Þær keyra frá einum stað til annars nánast streitulaust og maður hefur engin tækifæri á að stoppa ef maður sér eitthvað áhugavert. Á mótorhjólinu höfum við valið að keyra um þjóðvegi, malarvegi og jafnvel moldarvegi, og höfum þar af leiðandi séð ótrúlega náttúru og hitt fólk sem býr á afskekktustu stöðum. Við höfum keyrt í gegnum frumskóga, yfir 2500 metra háa fjallgarða, séð endalausar breiður af hrísgjrónaökrum, banana- og kókostrjám, te- og kaffiplantekrum. Þið getið ekki skilið hverju "næs" það er, fyrr en þið prófið það, að vera búinn að keyra lengi, vera svangur og þreyttur og ákveða þá að taka klukkutíma eða tvo í að stoppa á fáförnum stað, slengja upp hengirúminu milli tveggja trjáa, éta einhverja ávexti og nammi sem maður keypti um morguninn og blunda síðan í hengirúminu. Vakna síðan endurnærður og halda áfram. Það er ólýsanlega "næs".


Til að þið fáið smá tilfinningu um hvað hefur gerst hjá okkur síðustu daga, þá ætla ég að telja upp nokkra eftirminnilega hluti.

Leiðin í gegnum frumskóginn milli Karwar og Yellapur.
Hér keyrðum við í nokkra tíma frekar slæman veg sem lá í hlykkjum meðfram ám, í fjallshlíðum og yfir læki. Það var þéttur og þykkur frumskógur og við sáum ekki sálu á leiðinni. Frábær leið. Í Yellapur hittum við Íraelskt par sem var að keyra milli sömu staðanna en hafði valið þjóðveginn. Þau lentu í endalausum röðum af vörubílum, rútum og öðrum ökutækjum. Þegar þau loks komust til Yellapur voru þau örmagna af þreytu og kolsvört af útblæstris-sóti.

1 : Gististaðirnir okkar í borgunum Yellapur, Sirsi, Shimoga og Hassan.
Yellapur og Sirsi: Lítil og "basic" herbergi, með holu í staðinn fyrir klósett, fötu í staðinn fyrir sturtu og puttaför á veggjum í staðinn fyrir málningu. Samt einhve
rnveginn................ kósí.
Verð: 300 kreppukrónur.
Shimoga og Hassan:
Margra stjörnu svítur með sjónvarpi, síma, loftkælingu, herbergisþjónustu en umfram allt starfsfólki sem beinlínis krafðist þess að fá ríkulegt þjórfé
.
Verð: 2000 kreppukrónur.

2. Fjallaþorpin Ooty og Munnar.
Lítil og krúttleg fjallaþorp sem liggja í yfir 2000 metra hæð. Þetta eru staðirnir þar sem breskir nýlenduherrar byggðu sér sumarleifishús því hér er loftið svalt. Frekar svona eins
og þægilegt evrópskt loftslag en brennandi indverkst. Vegirnir í þessum þorpum liggja allir í hlykkjum til að sveigja hjá hólum og hæðum og eru þ.a.l mjög skemmtilegir í keyrslu. Í Ooty leigðum við sjúskaðan hjólabát og fórum að sigla á vatninu sem liggur í miðjum bænum. Einnig keyrðum við upp á hæsta tindinn sem heitir Doddabetta og þar á að vera hægt að sjá 80 km í allar áttir. Þegar við fórum var hins vegar skýjað og maður sá ekki rassgat. Skömmu eftir að við komum til baka í gististaðinn okkar fór að rigna. Og þvílík úrhellis rigning. Ég hef sjaldan séð jafn stóra regndropa á ævi minni. Það var áhugavert en lokaði mann inni það sem eftir var. Þannig að við fórum inn í herbergi að spila Tetris og hlusta á "Stúlkan sem lék sér að eldinum" af Ipod-inum.



3. Allt hitt
Stíflan milli Karwar og
Yellapur, sundlaugagarðurinn í Coimbatore, höllin í Mysore, græni plantekrudalurinn í Munnar, bognu trén nálægt Jog fossunum, strákana með 50 ára gamla hermótorhjólið, hengirúmin í hádegispásunni. Ég gæti haldið áfram endalaust.


Að lokum ætla ég að birta mynd af planinu okkar eins og það er í augnablikinu.


Grænu punktarnir á myndinni tákna staði sem við höfum heimsótt. Rauðu línurnar eru leiðir sem við ætlum að keyra og gulu línurnar er leiðir þar sem við hendum hjólinu og sjálfum okkur upp í lest. Ef við hefðum meiri tíma myndum við sennilega keyra alla leið en vegalengirnar hér eru bara svo miklar.

Núna erum við á stað sem heitir Allapey. Hægt og rólega ætlum við að fikra okkur suður á bóginn. Næsti áfangastaður verður ströndin Varkala. Etir það heimsæknum við syðsta odda Indlands, Kanyakumari. Upp austurhluta Indlands til borgarinnar Chennai. Lest til norð-austurs. Hrísgjrónahéraðið Assam sem á þann vafasama heiður að vera blautasta svæði á Jörðinni. 12 metra úrkoma á ári. Fjallahéruðin Arunachal Pradesh og Sikkim. Arunachal Pradesh hefur lengi verið lokað túristum og það þarf sérstakt leyfi til að fara þangað. Sjáum til hvernig fer. Sikkim verður fyrsti staðurinn þar sem við snertum Himalaya fjöllin. Frá öllu héraðinu á að vera hægt að sjá fjallið Kangechenjunga, þriðja hæsta fjall veraldar, 8586 metra hátt. Aftur skellum við okkur í lestina til höfuðborgarinnar Delhi. Keyrum til Agra og skoðum Taj Mahal. Maður fer nú varla til Indlands án þess að sjá það. Keyrum síðan í vestur í Thar eyðimörkina í Rajastan og skoðum bláu húsin í Jodpur og virkið í Jaisalmer. Förum aftur til Delhi og keyrum, ef veður leyfir í norður til Kasmír&Jammu héraðs. Höldum okkur í Ladakh í austur Kasmír þar sem er ekkert vesen. Keyrum vonandi yfir hæsta veg í heimi sem liggur yfir Khardung La heiðina í 5359 metra hæð. Reynum að selja hjólið í Manali eða Delhi, tökum lestina til baka til Mumbai og fljúgum heim, vonandi búin að slökkva ferðaþránna fyrir fullt og allt.