Tuesday, March 23, 2010

Húsbátur og Yoga

Alleppey. Lonely Planet bókin segir að staðurinn sé nokkurs konar smækkuð útgáfa af Feneyjum. Ég hef ekki komið til Feneyja en ég held að mig langi heldur ekki ef sá staður líkist að einhverju leiti skítuga og óspennandi Alleppey. En ef maður skoðar nágrenni bæjarins þá léttir strax yfir manni. Alleppey er nefninega umkringt af seiðandi vötnum og skurðum sem í langan tíma hafa þjónað íbúm Vestur-Kerala sem einhverskonar þjóðvegir. Það er svolítið erfitt að lýsa hvernig þetta svæði er. Ég veit ekki hversu stórt þetta er að flatarmáli, en ímyndið ykkur flatt svæði, sem samanstendur aðallega af hrísgrjónaökrum og þorpum. Í staðinn fyrir að þorpin eru tengd saman með vegum úr tjöru og gróti, þá liggja vatnsfylltir skurðir þvers og kruss um svæðið, og fólk notar báta í staðinn fyrir bíla til að komast í kirkju, á markað eða í skólann. Skurðirnir eru lífæð svæðissins. Fólk notar þá ekki einungis til að komast á milli staða heldur líka til að veiða fisk, baða sig í, sem skólp, ruslahaug og jú, sumir meira að segja drekka úr skurðunum.

Þessu öllu komumst við að þegar við leigðum okkur húsbát. Í Alleppey hittum við nefnilega ástralskt par, og í sameiningu prúttuðum við niður verð fyrir leigu á húsbát. Bátnum fylgdi 3 manna áhöfn. Skipstjóri, kokkur og einn annar sem virtist ekki hafa neitt ákveðið verkefni og ég skildi eiginlega aldrei af hverju hann var þarna. Innifalið í verðinu sem við sömdum um voru 3 máltíðir á dag.




Fátt markvert gerðist í þessari ferð, en það var kannski líka það sem við vonuðumst eftir. Því í 3já daga gerðum við ekkert annað en að liggja í leti, spjalla, spila, éta og drekka bjór, meðan við í rólegheitum sigldum um vötn og skurði.

Það atvik sem mér er eftirminnilegast gerðist annað kvöldið okkar, þegar við stukkum í vatnið. Formálinn að því var að eftir að skipstjórinn lagði bátnum við skurðbakka einn, sá ég, nálægt mér tvo menn á spjalli. Þeir sátu nálægt bakkanum og í vatninu við hliðina á þeim var einhvers konar kanó. Íslenska orðið yfir kanó þekki ég ekki. Ég gaf mig á tal við þá og spurði hvort ég mætti ekki fá kanó-inn í láni í smástund. Þeir játtu og ég gerði mig kláran til að stíga um borð. Ég hef þónokkrum sinnu áður róið bæði í kanó og kæjak og hélt að þetta yrði leikur einn. En um leið og ég hafði komið mér fyrir í bátnum , áttaði ég mig á að þessi bátur var öðruvísi. Hann var ævintýranlega "óstabíll". Með árina í báðum höndum studdi ég mig við bakkan og náði að halda mér uppréttum í nokkrar sekúndur. En þar sem ég þrýsti árinni í bakkann, fór mig að reka hægt og rólega frá honum og allt í einu uppgötvaði ég að ég var kominn 3 metra frá landi og sveiflaði árinni upp og niður til að halda jafnvægi, líkt og óreyndur línudansari. Ég áttaði mig fljótlega á hinu óumflýjanlega og hugsaði með mér að ég var heppinn að vera ekki með Ipod-inn eða peningaveski og passa innan á mér. Skömmu seinna var ég að hamast við að skófla vatni úr bátnum, rennblautur og heyrði hlátrasköllin í Sigrúnu og ástralska parinu. Þau höfðu sennilega heyrt mig hrópa "shitt!" áður en ég steyptist í vatnið. Parið var ekki lengi að skella sér útí líka, og eftir að ég var búinn að fullvissa Sigrúnu um að ég hefði ekki séð krókódíl eða önnur grunsamleg dýr nálægt, stakk hún sér útí plöntugrænt vatnið.




Eftir bátaævintýrið ákváðum við Sigrún að prófa yoga. Yoga er upprunnið á Indlandi, að því er ég best veit, og því þótti okkur tilvalið að skella okkur þegar nokkrir vinir okkar sögðu okkur frá stað þar sem það er kennt.

Yogasetrið heitir því þjála nafni, Sivananda Yoga Vedanta Dhanwantari Ashram. Sivananda var karlinn sem stofnaði setrið, orðið yoga þarf ég ekki að útskýra, Vedanta Dhanwantari hef ég ekki hugmynd um hvað þýðir, og er eiginlega líka slétt sama. Ashram þýðir setur þar sem fólk sefur og borðar, milli þess sem það stundar yoga. Þetta er því einskonar yoga........... kommúna. Á þessum stað vorum við í eina viku, og ég verð að segja að ég veit ekki hvort ég sé feginn að þetta sé búið eða ekki. Leyfið mér að útskýra hvernig venjulegur dagur fór fram.

5:20 Vakning. Já þetta er ekki villa. 5:20 og þá erum við að tala um morgun. Þið getið ímyndað ykkur hversu erfitt þetta var fyrir mig. Nei í alvöru, ég er í fríi en ekki í vinnu.

6:00 Meditation & chanting. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að þýða þessi orð, en ég held að íhugun og uml gætu passað vel. Ef einhver veit um betri þýðingu, má viðkomandi láta mig vita. Eins og það sé ekki nógu erfitt að vakna, þá þarf maður í heilan einn og hálfan tíma að fyrst sitja á steypugólfi(reyndar með mottu)með krosslagða fætur og íhuga. Ef ég skildi hugtakið rétt þá þýðir það að sitja hreyfingarlaus með lokuð augun og tæma hugann, þ.e. að hugsa um ekki neitt. Það er mun erfiðara en það virðist. Síðan er það uml-ið. Forsprakki seturssins situr þá á sviði og raular forna söngva á sanskrit-máli og ég, Sigrún og hitt fólkið endurtökum í kór.

8:00 Yoga tími. Kennarinn sýnir ýmsar vöðvaæfingar og teyjur og við lömbin hermum eftir. Æfingarnar voru fínar fyrir mig. Þær snerust mest um að styrkja ákveðna vöðva. Teyjurnar voru annað mál. Ég veit að þið eigið erfitt með að trúa því en ég er ljósár frá því að geta talist liðugur. Venjulega þegar ég tek þátt í einhvers konar hóp-æfingum, hvort sem það reynir á hausinn eða líkamann, þá get ég alltaf sætt mig við að vera meðalgóður, þ.e. það eru einhverjir sem eru betri en ég og einhverjir sem eru slakari. Í teyjuæfinugum er ég á botninum. Þegar t.d. kemur að því að sitja á gólfinu með krosslagða fætur og halla sér fram án þess að beygja bakið, þá á ég fullt í fangi með það fyrsta, að krossleggja fætur. Ef það tekst þá beina þeir meira upp en til hliðar eins og þeir eiga að gera. Og úr því að það er svo, þá finnst mér ég stanslaust vera að detta aftur fyrir mig. Lausn mín við því er auðvitað að halla mér fram. Það get ég hins vegar ekki nema að beygja bakið í keng, því annars drepainnanlærisvöðvarnir mig úr teyjusársauka. Niðurstaðan er því sú að ekki einungis lít ég kjánalega út, heldur er ég líka að gera æfinguna kolvitlaust.

10:00 Brunch, þ.e. morgun/hádegismatur. Úff, búinn að gera allar þessar æfingar sársvangur og loksins er matur. En auðvitað er hann ekki eins og maður er vanur. Í fyrsta lagi er maturinn "vegetarian". Þeir sem þekkja mig vita að ég elska kjöt og vita því hvað mér finnst um "vegertarian" mat almennt. Í öðru lagi er maturinn borðaður með höndunum en ekki hnífapörum. Allt í lagi, ég er ekki vanur því en það sleppur svosum. Í þriðja lagi situr maður ekki á stól heldur á mottu á gólfinu. Og það er ætlast til að maður sitji með krosslagða fætur og halli sér fram til að ná í matinn. Ég lýsti því hér að ofan hversu vel það hentar mér. Í fjórða lagi er bannað að tala meðan maður borðar. Rökin fyrir því eru að maður sé ekki að sóa mikilvægri orku í tal, heldur geymi hana í yoga-æfingar, íhugun og uml.

Allt það sem talið er upp hér að ofan fellur þó í skuggan af því að maturinn er bara hreint út sagðt bragðvondur. Það er ekki flóknara en það. Ein af ástæðunum gæti verið sú að hvítlaukur og venjulegur laukur er bannaður í setrinu. Ekki spyrja mig um ástæðuna. Það er reyndar fleira sem er bannað. Það t.d. bannað að stunda kynlíf innan setursmarkanna. Símar eru bannaðir. Það er mælt með að fólk lesi ekki aðrar bækur en þær sem að einhverju leiti fjalla um yoga. Það er "dress-kóði" á svæðinu. Helst má ekki sjást í axlir og hné hjá körlum og alls ekki hjá konum. Tóbak, áfengi, eiturlyf og gæludýr eru ekki leyfð. Sérstakt leifi þarf til að yfirgefa kommúnuna.

En áfram með smjörið.

11:00 Karma yoga. Hljómar spennandi. Raunin er reyndar sú að þetta er bara flott orð yfir leiðinlega vinnu. Þetta snýst um að maður geri öðrum greiða án þess að heimta neitt í staðinn til að maður fái betra "karma" í næsta lífi. Sá greiði sem ég þurfti að gera vara að tæma ruslatunnurnar á kvennavistinni. Það var ekki mjög smekklegt. Indverjar og ég líka, við notum nefnilega hendurnar ásamt vatni á afturendann á okkur þegar við höfum lokið okkur af á klósettinu. Þetta hefur þær afleiðingar að klósettin hér eru ekki vön að fá í sig skeinipappír frá túristum og stíflast, og því þarf maður, ef maður notar pappírinn, að henda honum í ruslið. Þetta var ruslið sem ég tæmdi. Ég gekk með tunnurnar niður brekku að stað þar sem það var brennt. Áður en að það var brennt kom samt við sögu verkamaður sem flokkaði ruslið, ýmist með priki eða bara með berum höndum. Algengustu flokkarnir fannst mér vera:

1. Vatnsflöskur(tómar)
2. Skeinipappír(notaður)
3. Dömubindi og túrtappar(notaðir)

Hmm........ skemmtileg vinna. Ef það er satt að þessi vinna stuðli að farsælla næsta lífi, þá hlýtur ruslaflokkunarverkamaðurinn að eiga von á góðu.

14:00 Kennslustund. Fyrsta tímann kenndi fyndinn indverskur ayurveda læknir. Ayurveda lækningar eru að ég held mjög skildar náttúrulækningum. Sumir vita eflaust hvaða álit ég hef á þeim. Fræðin á bak við ayurveda lækningar er þessi. Þú fellur í einn af þremur flokkum:

1. Vata. Ef ég man rétt þá eru þeir sem lenda í þessum flokki æstir, jafnvel ofvirkir og byrja á mörgu en klára fátt. Skv. lækninum eru þetta þeir sem troða sér fram í röðum og keyra yfir á rauðu ljósi. Vindur og loft eru einkennishlutir þessa hóps.

2. Pitta. Mig minnir að þetta sé fólkið sem er draumkennt og tilfinningamikið. Einkenni hópsins er eldur. Af því að eldur er einkenni þessa hóps, og eldur er heitur, þá má þetta fólk ekki borða kryddaðan mat því kryddaður matur er heitur og þá raskast hitajafnvægið.

3. Kapha. Rólegt og mysterískt fólk. Einkenni eru vatn og jörð.

Það er mjög einfalt skv. lækninum að finna út hvaða flokk maður tilheyrir. T.d. er maður kapha ef maður getur náð að láta þumal og litla fingur hægri handar snertast utan um úlnið vinstri handar. Einnig er maður kapha ef þumall er teygður inn að lófa handar og þumallinn nær lengra en litli fingur. Svipaðar aðferðir eru fyrir hina flokkana. Þegar búið er að finna flokkin eru til listi yfir læknisaðferðir fyrir hvern flokk.

Ég verð að segja að ég efa að ég myndi vilja láta lækna mig af þessum lækni, væri ég t.d. með sprunginn botnlanga eða nýrnasteina eða eitthvað álíka.


Eftir kennslustundina endurtekur prógrammið sig síðan.

15:30 Yoga tími
18:00 Kvöldmatur
20:00 Íhugun og uml
22:30 Háttatími

Svona var dagskráin í grófum dráttum.

Ég tel mig vera skynsaman dreng. Það þarf rök til að sannfæra mig um hluti. Það er margt í yoga sem "meikar alls ekkert sens". Ég afneita t.d. algerlega ayurveda lækningunum. Bænir og guðadýrkun eru hluti af yoga. Þar sem ég tel slíkt falla undir einhverskonar trúarbrögð, þá afneita ég því líka. En ég verð að segja að í lokin naut ég þess stundum að hafa reglur. Ég naut þess að vakna fyrir sólarupprás. Ég naut þess að stunda íhugun og reyna að hugsa ekki um neitt. Það er róandi. Ég naut þess að gera æfingarnar og teyjurnar. Nú get ég setið með krosslagðar lappir í meira en hálfa mínútu án þess að bakið sé í keng. Á heildina litið held ég að við Sigrún nutum þess að vera í þessari yoga-kommúnu. Við kynntumst fullt af skemmtilegu og merkilegu fólki. En við erum líka fegin að þetta sé búið. Nú sofum við ekki lengur í aðskildum karla - og kvennavistum og nú getum við aftur faðmast og gert það sem pör gera. Því allt svoleiðið var auðvitað bannað.


P.s. Þegar Sigrún las þennan texta yfir áður en ég setti hann á netið, uppgötvaði hún að það vantar heila viku í textann. Eftir húsbátinn fórum við á strönd sem heitir Varkala og er alveg yndislegur staður. Fólk gistir uppi á kletti og síðan er vegur niður að ströndinni. Meðan við vorum í Varkala eignuðumst við fullt af skemmtilegum vinum. Sumir þeirra fóru með okkur í Yoga setrið og aðra eigum við eftir að hitta aftur þegar við förum til norður-Indlands. Með þessu fólki syntum við í frábærum öldum, spiluðum strandblak og drukkum bjór og heimalagaðan móhító. Þetta var frábær tími. Ég var klaufi að gleyma þessari viku í blogginu en svona er lífið.


Meira P.s. Við erum búin að breyta stillingunum á síðunni þannig að það er auðveldara að "kommenta". Nú þarf ekki lengur að gera sér "prófíl" heldur er hægt að "kommenta" sem "anonymous". Takk fyrir ábendinguna Svana:)

Fleiri myndir er hægt að nálgast á Facebook-inu hennar Sigrúnar.

8 comments:

  1. Hrikalega spennandi og skemmtilegt að lesa bloggið ykkar! Ég fylgist alltaf með og skoða myndirnar, tími til kominn að kvitta fyrir komuna:) Njótið þessa tíma í botn og hafið það gott!:)

    ReplyDelete
  2. Hver er Benny Lava?

    Skemmtileg ferðasaga, skemmtilega skrifað.

    ReplyDelete
  3. Mikið er gaman að lesa þessa frásögn.
    Ég er sko algjörlega með ykkur í huganum og er þegar farin að láta mig dreyma um að fara í svona ferð kannski að ég og Sigrún yngri skellum okkur saman þegar hún verður örlítið stærri!

    Haldið áfram að njóta lífsins og fara varlega ;-)

    ReplyDelete
  4. Hí hí þetta ofangreint er semsagt ég Kolla frænka ;-)

    ReplyDelete
  5. Hæ hæ gott að fá fréttir af ykkur og frábært hvað þið njótið lífsins. Skemmtileg frásögn og loksins nennir maður að kvitta fyrir því það var eitthvað svo mikið vesen áður að maður gafst bara upp ;) Haldið áfram að hafa það gott. Kveðjur frá landi elds og ísa sem ákkúrat þessa stundina stendur sko algerlega undir nafni. Jóhanna frænka og co

    ReplyDelete
  6. Váá ég á ekki til orð þið eruð greinilega að lifa lífinu þarna úti og ég meina húsbátur það er einhvað sem öllum dreymir líklega um en veit ekki alveg með þessa yoga-kommúnu. Haldið samt áfram að skemmta ykkur vel og blogga svona vel :D kv. Sandra(Egs)

    ReplyDelete
  7. Pff... bara 5.20, það er ekkert Loftur! Nei, djók :)
    Gaman að lesa bloggið ykkar!
    Það hlítur að vera rosalega skemmtilegt hjá ykkur og hlakka til að heyra í ykkur næst :D
    ps. gossip girl er byrjað aftur og nýju þættirnir eru geðveikt góðir og SPENNANDI!!!
    xoxo
    Rósa

    ReplyDelete
  8. Gott að ykkur tókst að laga þetta og sé að kommentunum hefur farið fjölgandi:):) Alltof langt síðan ég hef lesið, en beið spennt að koma að lesa eftir lokaskilin mín.
    Ég sprakk úr hlátri þegar ég las um kúkaverkamanninn hahah, þvílíkt snilldarjobb!
    En þessi jógavika ykkar fer bara í reynslubankann, kannski ekki það skemmtilegasta af ferðinni en gaman að upplifa:)
    Og var ég búin að minnast á það að ég er ennþá að kafna úr öfunsýki! buhu.
    Er núna að mana mig uppí að lesa nýjustu færsluna. Sá að hún er nánast á sömu lengd og harry potter bók.
    knús og koss xxx
    Svana:*

    ReplyDelete