Sunday, April 4, 2010

Indland frá suðri til norðurs

19 dagar hafa liðið síðan við tengdumst umheiminum síðast um alnetið. Síðan þá höfum við ferðast u.þ.b. 3500 kílómetra. Mikið? Andið rólega, það hefur aðallega verið í lestum en ekki á hjólinu. Við Sigrún höfum ekki þann stálrass sem þarf í að ferðast vegalengdir af þessari stærðargráðu og á þessum tímaskala. Eftir yoga ævintýrið brunuðum við 100 kílómetra í suður og enduðum á botni Indlands, Kanyakumari. Orðið botn lýsir staðnum ágætlega, því það er einnig notað yfir afturenda. Já, ég held að Kanyakumari sé rassgat Indlands. Á pappír er hægt að láta staðinn hljóma spennandi. Það mætast höfin þrjú, Bengalflói í austur, Indlandshaf í hásuður og Arabíuhafið í vestur. Öldur allra þessara hafa eiga að skella saman og mynda skemmtilega sjón. Það gerist hinsvegar ekki. Maður getur alveg eins verið staddur í Grindavík á stuttbrók með hitablásara í fanginu og horft út á sjóinn og látið ímyndunaraflinu lausan tauminn. Sannleikurinn er bara sá að staðurinn er "dull". Þetta er bara einn af þessum stöðum sem manni finnst maður þurfa að sjá en eru eiginlega ekkert merkilegir. Svipað eins og Bláa lónið. Seiðandi heilsulind í huganum, en óspennandi smokka- og flösupyttur í raunveruleikanum.

Áfram með ferðalagið.
Kanyakumari til Chennai. 12 tímar í lest. Við í farþegarými, greyið hjólið í farangurgeymslu. Á Íslandi verður maður eirðarlaus á að sitja í rútu í 45 mínútur en eftir að hafa verið á Indlandi í nokkurn tíma finnst manni varla borga sig að stíga upp í lest fyrir "einungis" 12 tíma ferðalag.
Þegar maður flytur mótorhjól með lestum á Indlandi er því pakkað og komið fyrir í lestinni af starfsmönnum lestarstöðvanna. Á lestarstöðinni í Kanyakumari tjáðu þessir starsmenn að vegna eldhættu þyrftum við að tæma bensíntankinn á hjólinu áður en það færi í lestina. Það hefði verið gott að vita það fyrirfram því tankurinn var næstum fullur. Gott og vel. Þeir náðu í rör og sugu hjólið þurrt. Bensínið settu þeir í brúsa, gengu með hann fimm metra og tæmdu á sínar eigin vespur. Einfalt kerfi. Þarna gáfum við þeim 8 lítra af bensíni sem kostar um 400 indverskar rúpíur. Einhvern tímann heyrði ég að meðallaun á Indlandi væru um 80 rúpíur á dag. Þeir voru þrír og að tæma hjólið, pakka því inn í pappa og koma því fyrir í lestinni, tók þá um 30 mínútur. Þannig að á okkur, heimsku túristunum, græddu þeir tæplega 2 daga laun hver. Þetta eru aukatekjur, umfram það sem þeir fá frá vinnuveitandanum. Og hvað haldiði að þeir geri næst? Rétta fram hendurnar og krefjast þjórfjár fyrir þjónustuna. "Er ég í faldri myndavél?" hugsaði ég um leið og ég gaf þeim puttann í huganum. Ég er ekki bilaður hraðbanki sem spýtir út peningum.


Starfsmennirnir að hella OKKAR bensíni á sín hjól.


Stutt stopp í Chennai. Nýtt og betra sæti á hjólið og grind fyrir farangur. Nú er hjólið virkilega farið að "lúkka".

Verið að smíða farangursgrind á hjólið.


Pöntuðum áframhaldandi lest frá Chennai til Kalkútta. Tvær lestir gengu daginn sem við ætluðum að fara til Kalkútta. Ein um morguninn og hin seint um kvöldið. "Fínt" hugsuðum við, og pöntuðum morgunlestina. Síðan töluðum við við starfsmennina sem áttu að sjá um að pakka hjólinu, líkt og í Kanyakumari. Þeir heimtuðu 700 rúpíur. Við gáfum þeim 300 til að halda þeim góðum, svo þeir myndu örugglega ekki klúðra neinu. Þegar þeir höfðu pakkað hjólinu sögðu þeir okkur vinsamlega, að ekki væri pláss fyrir hjólið í lestinni okkar og að það myndi fara með seinni lestinni. Það sættum við okkur alls ekki við. Þetta gengi kannski á Íslandi, en við erum að tala um Indland. Að vera viðskilinn við hina ástina í lífi mínu(þ.e. mótorhjólið) og vita ekki hvort hún yfir höfuð kæmi til Kalkútta, það gat ég ekki hugsað mér. Úr þessu ákváðum við að breyta miðanu okkar yfir í seinni lestina til að vera í sömu lest og hjólið. Þetta gerðum við. Þegar við komum til baka var hjólið farið. HA? Hvernig gat það mögulega verið? Það sem gerðist var að einfeldningarnir sem sáu um að pakka hjólinu höfðu sett það í FYRRI LESTINA!! Ég hélt ég yrði ekki eldri. Ég varð æfur og sneri mér að starfsmanninum sem virtist hafa umsjón með flutningnum. Ég hellti mér yfir hann og það endaði með að hann lét mig hafa 300 rúpíurnar aftur, en hjólið var á leiðinni til Kalkútta og við vorum í Chennai, 3000 kílómetra í burtu. Það var staðreynd sem ekki varð breytt. Svona er Indland. Take it or leave it.
Við komum til Kalkútta að morni, tæplega einum og hálfum sólarhring seinna. Eftir mikil kvíðaköst, bið, niðurgang, bið, eirðarleysi, pirring og loksins bið, sameinuðumst við aftur við hjólið.

Í Kalkútta hittum við belgískan strák að nafni Greg. Við höfðum hitt hann áður í Varkala í Kerala, og komumst að því að við vorum öll, þ.e. ég, Sigrún og Greg, á leiðinni til norðaustur Indlands, n.t. til Sikkim héraðs. Við höfðum tekið lestina frá Varkala en hann keyrði alla leiðina á Enfield hjólinu sínu. Frá Kalkútta til Sikkim vorum u.þ.b 800 kílómetrar og þessa leið keyrðum við í samfloti.
Greg. Meistari.


Á leiðinni drukkum við bjór, keyrðum yfir Ganges fljót, sprengdum afturdekkið á hjólinu, sáum flatkeyrða dauða hunda og rottur, gistum úti nánast undir berum himni þrátt fyrir að hafa verið vöruð við draugum í formi fagurra kvenna og keyptum okkur hlý föt. Hlýju fötin vegna þess að við vorum á leiðinni til Sikkim, ostsins í Nepal-Bútan samlokunni, í hjarta Himalayafjallanna.


Sprungið dekk.


Gisting úti.



Sigrún og Greg.


No comments:

Post a Comment