Friday, May 14, 2010

Sikkim til Manali

Við erum stödd í Manali. Það er orðið mjög langt síðan við létum heyra í okkur síðast. Við erum ennþá bæði á lífi. Síðasta færsla snerist um fjögurra daga ferðalag okkar til Norður-Sikkim. Það var auðvelt að segja frá því. En ef maður er bara að ferðast á milli staða, eins og við höfum verið að gera upp á síðkastið, verður erfiðara að láta það hljóma spennendi. Þannig að sumum gæti fundist þessi færsla vera þurr upptalning á stöðunum sem við höfum átt leið um síðan í Sikkim. Sorry.

Í Sikkim hittum við fjóra Ástrala, tvö pör, sem einnig voru að ferðast um á mótorhjólum. Þeirra plan var að keyra nokkur hundruð kílómetra í austur, og reyna að sjá einhyrnda nashyrninga í ákveðnum þjóðgarði. Hljómaði vel. Við ákváðum að slást í hópinn. Við brunuðum frá Gangtok til Kalimpong, og Kalimpong til Gorumara þjóðgarðssins. Í þjóðgarðinum fórum við á fílsbak í klukkutíma og sáum þrjá nasyrninga. Þessi dýr eru sérstök. Villt lifa þau aðallega á austur-Indlandi og í Nepal. Það er talið að nú séu um 3000 dýr eftir í heiminum. Það er ekki ýkja há tala og nashyrningurinn er flokkaður sem spendýr í útrýmingarhættu. En árið 1910 þegar fólk byrjaði að reyna að átta sig á stærð stofnssins, þá er var stærð stofnsins áætluð nálægt 100 dýrum.

Að sjá dýrin villt, í sínu rétt umhverfi var stórkostlegt. Þau virtust einhvern veginn ekki passa inn í nútíðina. Manni fannst eins þau hefðu komið beint frá risaeðlutímabilinu, án þess að þróast á leiðinni. Þetta dýr minnir á risastóran uppstökkan sekk, brynvarinn og vopnaðan og tilbúinn til árásar. Þegar fíllinn sem bar okkur í gegnum þjóðgarðinn vogaði sér aðeins of nálægt, þá lét úrilli sekkurinn í sér heyra. Hann fnæsti eins og boxari á kókaíni og vippaði sér inní skógarþykknið. Það var magnað að sjá dýrið spretta af stað eins kanínu, þrátt fyrir að vera jafn þungt og rúta.

Eftir þessa náttúruskoðunarferð kvöddum við Ástralana, þeir voru á leiðinni til Nepal, en við þurftum að fara að fikra okkur í vestur, til Manali, norður af Delhi. Við keyrðum einsog maraþonhlauparar til Varanasi, þvert yfir Bihar hérað, fátækasta hérað Indlands. Það tók tvo daga. Fyrri daginn keyrðum við 512 kílómetra, sem er sennilega Indlandsmet, frá klukkan 5:30 til 20:00. 512 kílómetra í landi þar sem umferðateppur eru normið, og tómir vegir eru undantekningar. Það er ekki þreytan sem gerir svona ferðalag erfitt. Það er lofthitinn, stanslaust sveittu rasskinnarnar, bogna bakið og háværa vélhjólið. Í heildina tókum við sennilega um eins og hálfs tíma hlé, ýmist til að skvetta úr skinnsokkunum eða til að nærast. Þannig að þennan daginn keyrðum við 13 klukkutíma. Sveittur rass í 13 tíma tekur sinn toll.

Dagurinn eftir var auðveldari, hraðbraut og aðeins 300 kílómetrar. Við mættum til Varanasi um kvöldið, fundum okkur hótel með loftkælinu og fengum okkur að kvöldmat. Varanasi er talin vera elsta borg Indland um 3000 ára gömul. Hún er einnig heilagasta borg landssins og dag hvern koma þúsundir Hindu-a til borgarinnar, ýmist til að "hreinsa sig" í ánni Ganges og til að kveðja ættingja og aðra nákomna.

Ástæðan fyrir gæsalöppunum hér að ofan er að áin Ganges er ævintýralega menguð. Hún er talin vera ein mengaðasta á á Jörðinni. Skv, Wikipedia, þá renna í ánna um 90 milljón lítrar af skólpi daglega. Fólk hendir í hana rusli og dýrahræjum, hrækir í hana og baðar sig síðan upp úr henni. Það er til alþjóðlegur staðall sem segir til um hversu margar saurbakteríur mega vera í vatni áður en það telst óhæft til líkamsþvottar. Þessi staðall segir að ekki sé æskilegt að fleiri en 500 bakteríur séu í 100 ml, meðan Ganges áin ber um 1.5 milljón bakteríur fyrir sama vatnsmagn. Sumir Hindu-ar meira að segja setja vatnið úr ánni upp í sig, og jafnvel kyngja því. En það er meira. Flestir Hindu-ar sem koma til Varanasi, koma til að kveðja látna ættingja. Hér eru líkin brennd á bökkunum og öskunni síðan varpað í ánna. Fólk sem telst heilagt í einhverjum skilningi er ekki brennt heldur sökkt beint í ánna.

Eitt kvöldið þegar við vorum á gangi á bökkum árinnar, þá jókst vindurinn skyndilega. Eftir nokkrar mínútur var skyggnið orðið lítið og hitastigið búið að hrapa um sennilega 15 gráður. Ég velti fyrir mér skyggnisleysinu. Hinum megin árinnar vorum miklir sandar. Með augun, munninn og lungun full af því sem ég vonaði að væri sandur, fór ímyndunaraflið mitt á fullt. Ég hugsaði með hryllingi til líkbrennslunnar aðeins ofar í ánni, og velti fyrir mér hvort gæti verið að ég væri í raun að anda að mér líkryki. Ég ímyndaði mér að efnið milli tannana á mér væri kannski hluti úr ömmu einhvers, sem hefði dáið úr holdsveiki og ekki fundist fyrr en hálfum mánuði eftir andlátið. Það var ekkert við þessu að gera nema koma sér á hótelið sitt og fara í góða sturtu og tannbursta sig almennilega.

Í Varanasi, sem er mikil túristastaður, áttuðum við okkur á að við vorum farin að hlakka til að komast heim til Danmerkur. Við áttuðum okkur á að 3 og hálfur mánuður á Indlandi er nóg til að maður fari að sakna matsins sem maður er vanur að borða, fólkssins sem er ekki bara að tala við mann því það heldur að maður eigi fullt af peningum, umferðarinnar þar sem reglur og umferðarmerki eru ekki einungis til hliðsjónar og veðurssins sem er ekki að reyna að grilla þig eins og kjúkling. En umfram allt er staðurinn þar sem við eigum heima, norðvestur Evrópa, staður þar sem hlutir einfaldlega fúnkera. Við vorum orðin þreytt á setningum eins og "Sorry sir, not possible" og "no, sir, not availible."

Fyrri setnignuna heyrðum við til dæmis eitt skipti þegar við sátum inni á veitingastað í bænum Hassan á suður-Indlandi. Staðurinn hafði borð bæði innandyra og utan. Það var gott veður, ekki of heitt og okkur langaði að borða úti. Við spurðum þjóninn hvort hann gæti nú ekki fært okkur matinn út á veröndina þar sem við ætluðum sitja. "Sorry sir, not possible, only after 6". Við horfðum á tóm borðin og skildum eiginlega ekki hvað var svona ómögulegt við þetta. Tveimur metrum frá þessum borðum sátu nokkrir bisnissmenn á tali. Ég spurði af hverju þeir mættu vera á þessu bannsvæði. "Only ok if you smoking". Við sögðumst ekki reykja og spurðum hvort við gætum ekki bara setst og fengið matinni okkar þrátt fyrir reykingaleysið. "Sorry sir, not possible." Svona stað yrði lokað á Íslandi.

Hin setningin var ekkert minna frústrerandi. Það er nefnilega þannig að veitingastaðaeigendur á Indlandi halda að með því að hafa nógu langan og fjölbreyttan matseðil, þá lokki þeir fleira fólk að. Sumir staðir státa sig af því að hafa mjög alþjóðlegt matarborð, indverskt, kínverks, rússneskt, og vestrænt. Þegar gestir hafa síðan tekið hálftíma í að ákveða hverjar af kræsingunum þeir ætli að fá, þá segir þjónninn, "Sorry sir, not available". Frábært, ég finn þá eitthvað annað. Aðrar fimmtán mínútur og hann slengir sömu óþolandi setningunni frama í þig. Með þjóninn við hliðina á þér, bendirðu á þriðja valið þitt. Sama sagan, ekki til. "Hvað er til?" spyrðu ergilega. Þjónninn bendir þér vinsamlegast á að ekkert á opnunni fyrir framan þig er "available", heldur aðeins úr hægri dálknum á efri hluta vinstri opnunnar á undan. "Allt í lagi, semsagt þessir 5 réttir?". "'Yes sir" segir þjónninn eins og það sé ekkert athugavert við þetta fyrirkomulag.

Í Gangtok, höfuðborg Sikkim héraðs, er lítill veitingastaður, lítil búlla sem selur ákveðnar matar-rúllur. Þessar rúllur borðaði ég og fleiri oft því þær voru ævintýralega góðar. Eitt sinn kom ég á staðinn og lét guttann bak við afgreisluborðið vita að ég ætlaði að fá efstu rúlluna á matseðlinum. Matseðill samanstóð af um 10 mismunandi rúllum og engu öðru. "Sorry sir, not available". Ég benti á næstu rúllu sem mér fannst áhugaverð. Sama svar. Þetta hélt áfram þar til ég var búinn að benda á 4 mismunandi rúllur og alltaf fékk ég sama svarið. Hvað var eigilega til? Ég leit á fólkið í eldhúskróknum bak við guttann. Það var GREINILEGA að búa til rúllur. Voru rúllurnar sem það var að búa til skrifaðar með ósýnilegu bleki á matseðillinn? "Ég ætla að fá þessa" sagði ég og benti á enn einn staðinn á matseðlinum. "Sorry sir, not available". "Do you have any rolls?" sagði ég æstur og leit í sömu andrá á auglýsingaskiltið fyrir ofan afgreiðsluborðið. Þar stóð nafn staðarins: "The Roll House". Var staðurinn bara að búa til rúllur, en ekki selja þenna daginn? Ef svo var þá gleymdist að láta hópinn af viðskiptavinunum sem stóð allt í kringum mig vita. Guttinn sá hvað ég var að hugsa og benti mér á einu þrjár rúllurnar sem voru til og ég tók eina af þeim.

Annað sem er eiginlega bara hlægilegt, umræðuefni sem oft ber á góma þegar maður hittir aðra evrópska túrista. Þú situr á veitingastaðnum og sérð eitthvað sem þig langar í. Klukkan er 11:20 en á matseðlinum fyrir framan þig stendur að rétturinn sem þú valdir er ekki "available" fyrr en klukkan 11:30. "Hmm, 10 mínútur, það ætti að reddast" hugsar þú. Þú kallar í þjóninn og lætur hann vita hvað það er sem þú ætlar að panta. "Sorry sir, not available until 11:30". Þú lætur hann vita að klukkan sé nú mjög nálægt því að vera 11:30. "Sorry sir, not possible". Þú lítur á klukkuna og tjáir honum að ætlir að bíða aðeins með að panta. Þegar klukkan þín segir 11:30, þá hóar þú aftur í þjóninn. Þú bendir aftur á sama réttinn en hann segir aftur "Sorry sir." Jesús minn, hvað er í gangi? Þú kemst að því að klukkan hans er 2 mínútum á eftir þinni. Þú þykist vera að hugsa málið í tvær mínútur meðan hann bíður við hliðina á þér, síðan bendirðu í þriðja skipti á réttinn og horfir á hann spurnaraugum. "Ok sir, no problem" segir hann eins og undangengnar 10 mínútur hafi aldrei átt sér stað. Merkilegt. Hitt er samt ergilegra þegar rétturinn sem þú hefur fest auga á, HÆTTIR að vera "available" klukkan 11:30. Þú lítur á klukkuna og hún segir 11:33. ÞAÐ er ergilegt og ekkert við því að gera.

Ok þá er þessum útúrdúr lokið.

Við vorum komin með nóg. Okkur langaði heim. Ég fór á netið og kíkti á hitastigið þann daginn. 47 gráður takk fyrir.

Í Varanasi hittum við sænskan strák að nafni Eric sem líka ferðaðist á mótorhjóli. Hann höfðum við hitt tveimur vikum áður í Sikkim. Eftir nokkra daga í Varanasi-bakstursofninum lögðum við í hann, við Sigrún ásamt Eric. Stefnuna tókum við á borgina Agra. Sú borg er aðallega fræg fyrir eina ákveðna byggingu. Sú bygging heitir Taj Mahal.

Ferðin átti að taka einn dag, en tók tvo. Ástæðan var að bensíntankurinn hans Eric var fullur af vatni. Þarna laug ég. Hann var botnfullur. Okkur til ótrúlegrar undrunar, þá fúlsaði vélin í hjólinu hans Eric við vatninu. Hún vildi ekki ganga á því. Ótrúlegt. Það tók okkur nokkra tíma að átta okkur á vatninu og "fixa" þetta. En þessi uppákoma var þess valdandi að við þurftum að gista á leiðinni. Við fundum gististað, í litlu þorpi sem lá að veginum sem við keyrðum. Okkur leist ágætlega á staðinn, við spurðum um verðið og enduðum á að panta loftkælt herbergi, því hitinn úti var óbærilegur. Í þessu landi vorum við orðin vön þeirri staðreynd að rafmagnið dettur inn og út, og þegar við pöntuðum herbergið þá var rafmangslaust. Eigandi staðarins lét okkur vita að rafmagnið myndi hrökkva inn um klukkan 22:00, nokkrum tímum seinna. Klukkan sló 22:00 og ekkert rafmagn. Sveitt af hita og raka fylgdumst við náið með klukkunni. 22:30. Ekkert rafmang. Hálftíma lætur Eric okkur vita að hann haldi þetta ekki lengur út, og að hann ætli upp á þak og sofa þar því þar sé mun svalara. Við Sigrún liggjum andvaka til klukkan 2:00 um nóttina, í ástandi sem orðið pirringur nær engan vegin að lýsa. Við drögum lappirnar og teppið okkar upp á þak, sigruð af óréttlæti heimssins. Tveimur tímum af andvöku og núll mínútum af svefni seinna áttum við okkur á að ógerlegt er að festa svefn vegna yfirgengilega árásargjarnra moskítóflugna. Ég rusla mér á fætur, lulla niður í herbergið og næ í flugnanetið við höfðum keypt í Allepei. Þegar ég er búinn að koma því upp, dýnunum undir það, og okkur sjálfum á þær, hugsa ég með mér að nú sé komið að því. Lokssins fengi ég að stunda þessa heilögu athöfn, þessi almennu mannréttindi sem svefn er. Við lokuðum augunum og hægt og rólega tók þreytan völdin. "En ljúft" hugsaði ég. Sú hugsun tók snöggan endi þegar ég heyrði yfirgnæfandi bænakallið úr múslimsku moskunni 100 metra í burtu. Já klukkan var orðin 4:00 og tími var kominn fyrir fólk að vakna og fara með morgunbænirnar sínar. Takk kærlega.

Daginn eftir, úrvinda af þreytu, náðum við til Agra. Við gerðum það sem við gerum oftast þegar við komum inn í nýjan bæ, keyrðum í hringi, villt. Á endanum fundum við þó gististað með veitingastað á toppnum þar sem hægt var að sjá toppinn á Taj-inu. Við hentum af okkur farangrinum, fórum í menningarferð á McDonalds, og keyptum okkur síðan miða í Taj Mahal-ið á okurverði. Klukkan var 6:20 þegar við fengum miðana okkar í afgreiðslunni og byggingin átti að loka klukkan 7. Við hefðum heldur kosið að fara daginn eftir og hafa nægan tíma til að skoða þennan marmarahaug, en auðvitað var byggingin lokuð almenningi á föstudögum, og þennan daginn var fimmtudagur. Verðið fyrir miðana var 750 inverskar rúpíur fyrir útlendinga en 20 rúpíur fyrir Indverja. Við höfðum oft lent í svona aðstæðum, þ.e. að útlendingar eru rukkaðir mun meira en infæddir, en þetta var gróft. Að við þurfum að borga næstum 40 sinnum meira er ansi nálægt því að vera móðgun.

Með miðana að vopni hlupum við sjálfsörugg að öryggishliðinu sem þurfti að fara í gegnum áður en hægt var að berja bygginguna frægu, augum. Sér röð var fyrir kvenfólk. Sigrún hljóp í gegn. Ég var á undan Eric í röðinni og hafði með mér hliðartöskuna sem við Sigrún notum til að geyma dót. Öryggisvörðurinn skimaði í gegnum draslið í töskunni okkar. Ég var farinn að hafa áhyggjur af því að hann myndi gera myndavélina eða símana okkar upptæka. Í töskunni voru einnig USB-lyklar, peningabuddur, malaríupillur og sitthvað fleira. Vörðurinn tók upp hlut sem ég áttaði mig ekki strax á hver væri og sagði "Sorry sir, this not allowed inside." Ég áttaði mig á hvað það var sem hann hafði í höndunum, það var Hauka-handboltaspilastokkurinn hennar Sigrúnar. Ég gapti af undun og spurði hvort hann væri að hafa okkur að fíflum. Nei, svona eru reglurnar. Ég spurði hvar ég gæti náð í stokkinn eftir Taj-heimsóknina. "Sorry sir, not possible". Það var semsagt ekki hægt að fá stokkinn aftur eftir heimsóknina. Þetta er einn af þessum hlutum við Indland sem ég skil ekki og á sennilega aldrei eftir að skilja.

Byggingin var falleg. Hún var fullreist árið 1653 eftir rúm 20 ár í byggingu. Maðurinn sem fyrirskipaði bygginguna, Shah Jahan, gerði svo til minningar um eftirlætis eiginkonuna sína. Byggingin er af mörgum talin vera ein sú fallegasta í þessari jörðu. Ætli ég geti ekki samsinnt því. Vissulega var hún stórfengleg. Hún er samt ekki jafn hvít og á myndum, og himininn er ekki jafn blár. En byggingin sjálf er risavaxin, og í raun mun stærri en maður heldur þegar maður sér myndirnar. Við skoðuðum þessa frægu byggingu á hlaupum vegna áðurnefnds tímaleysis. Þegar við stoppuðum til að grandskoða eitthvað ákveðið, þá kom alltaf einhver vörður með flautuna sína og pípti á okkur, því verið var að loka svæðinu. Við tókum nokkrar klassískar Taj Mahal myndir, og fórum síðan okkar leið heim, spilalaus.

Frá Agra héldum við áfram okkar leið til Delhi. Það tók okkur um 3 tíma að komast frá borgarmörkunum og inn í miðjuna, þar sem við ætluðum að gista.

Í Delhi gerðist eiginlega fátt markvert fyrir utan að við fórum í 3D bíó. Upprunanlega ætluðum við að sjá Avatar og Lísu í Undralandi, en af einhverjum ástæðum var ekki verið að sýna þær. Þess í stað sáum við tvær aðrar 3D myndir. Myndirnar voru eðalteiknimyndin "How to train your dragon" og ruslahaugurinn "Clash of the Titans". Fyrri myndin fannst mér frábær, kannski að hluta til vegna þessa að hafði aldrei farið í þrívíddarbíó áður. Seinni myndin hefði verið frábær á þakinu þegar við gátum ekki sofnað fyrir flugum og bænaköllum. Hún hefði svæft okkur vel. Ég steinsofnaði allavegana í bíóninu.

Eric hafði lítinn tíma eftir og ætla að nýta restina af fríinu í að versla og selja hjólið sitt. Við kvöddum hann og lögðum af stað til Manali.

Manali liggur í rótum Himalayafjallanna á norður-Indlandi, og þar er byrjar vegur sem okkur langar að keyra einn daginn. Vegurinn heitir "The Manali-Leh Highway" og liggur, eins og nafnið gefur til kynna, frá Manali til Leh í Kasmir héraði. Vegurinn er opinn aðeins nokkra mánuði á ári, á sumrin, vegna snjóþyngsla. Hann liggur yfir hæstu keyrsluhæfu heiði í heimi sem liggur í rúmlega 5000 metra hæð.

Hér í Manali hef ég áttað mig á að Indland er land sem ég get ekki annaðhvort elskað eða hatað. Það verður alltaf bland af hvoru tveggja. Stundum hefur allt virtst svo einfalt á þessu ferðalagi okkur. Við höfum notið þess til fullnustu að þurfa ekki að vinna og geta vaknað þegar við viljum. Við höfum hitt frábært fólk, Indverja og aðra, borðað ljúffengan og ódýran mat, séð magnaðar byggingar og menningu og enn magnaðri náttúru.

Á öðrum tímum hefur okkur liðið eins og ég lýsti að ofan, þegar við getum ekki hugsað okkur að vera lengur. Þessir tímar skiptast á. Í Varanasi, Agra og Delhi vildi ég komast heim, og núna hér í Manali, með snæviþakta tinda í baksýn, vildi ég að ég gæti verið svolítið lengur.

Ástæðan fyrir því að ég tala oftar um neikvæðu þættina er að það er miklu einfaldara að lýsa hneigslun sinni á einhverju en aðdáun. Það er miklu einfaldara að tala hluti niður en upp. Og þrátt fyrir að stundum vildi ég að við værum komin heim, þá hefur þetta ferðalag verið stórkostlegt. Það hefur verið frábær upplifun frá upphafi til enda, og ég er stórkostlega feginn að við ákváðum að fara í þetta ferðalag.

Við ákváðum að fara í ferðalagið því við vorum bæði orðin svolítið leið á lífinu heima í Kaupmannahöfn, sérstaklega skólanum. Ferðin braut aldeilis upp hversdagsleikann, og ég hlakka til að setjast aftur fyrir frama skólabækurnar. En ég vonaði einnig að þessi ferð myndi að hluta til slökkva í mér ferðaþránna, neistann sem hefur blundað í mér alveg síðan ég fór til suð-ausur Asíu fyrir þremur árum. Sú von er hinsvegar glötuð. Ég hef áttað mig á að það er erfitt að drepa ferðabakteríuna. Hún styrkist bara með hverri reisunni.




Við vonum að okkur takist að selja hljólið í tæka tíð, síðan ætlum við að slaka á og ná aftur smá lit á sundlaugarbakka á hóteli í Jaipur, áður en við fljúgum heim frá Mumbai þann 25. maí.

kv, Loftur











4 comments:

  1. Þetta er skemmtileg lesning. Ég get svo vel skilið ykkar í sambandi við pirr pirr hegðum Indverjanna þar sem ég vann með þeim í rúm 2 ár og langaði mann oft að garga og sjálfsagt gerði ég það oft !!!.
    Vona að síðustu dagarnir ykkar í þessari ferð verði bara tóm sæla ;-) Kveðja og Knús Kolla

    ReplyDelete
  2. Frábær lesning og gott hvað allt hefur gengið vel þrátt fyrir óútreiknanlega indverja. Gangi ykkur vel í lokaáfanganum á Indlandi. Kveðjur og knús frá okkur hér á Miðvanginum :)

    ReplyDelete
  3. hljómar eins og eitt stykki rosaleg ferð...ég er ekki að fara í ferðalag á næstunni og þið eruð ekki að hjálpa til við að halda því þannig...

    Petur

    ReplyDelete
  4. Hallo ihr beiden, habe gerade den letzten Text gelesen - Gott sei Dank, dass ihr noch lebt ;) Schön und interessant, wieder von euch zu hören, danke. Vielleicht wirst du ja doch noch Schriftsteller nebenher, Loftur... Und es freut mich, dass ihr euch wieder auf Dänemark freut, und auf die Schule. Carina war hier und wollte u. a. Skype einrichten für mich, hat aber nicht geklappt, leider. Vielleicht können wir trotzdem mal telefonieren, wenn ihr wieder daheim seid. Meine Festnetz Nr ist: 00497381-714701. Nun wünsche ich euch, dass ihr das Motorrad gut verkaufen konntet und dann einen guten Heimflug habt. Ich freue mich aufs nächste Wiedersehen ;) Liebe Grüße, eu

    ReplyDelete