Thursday, April 15, 2010

Sumum sem lásu síðustu færslu gæti fundist eins og ég, eða bæði ég og Sigrún, værum búinn að fá nóg af Indlandi. Þar geri ég fátt annað en að rakka niður staði og kvarta undan Indverjum. Það var þá. Þá vorum við í lest. Í þessari færslu verðum við á mótorhjóli. Þetta verður öðruvísi.

Í þessu bloggi mun ég nota aðra framsetningu til að koma frá mér efninu. Ég ætla að kalla framsetninguna myndablogg. Í stað þess að rausa um hitt og þetta í langlokutexta eins og ég hef gert hingað til, þá ætla ég að birta myndir sem við tókum, og útskýra þær með orðum. Ég vona að lesendur fái kannski betri mynd af því hvað það er sem við erum að aðhafast hér á Indlandi. Það gæti tekið svolítinn tíma að hlaða niður síðunni sökum þess hversu margar myndir hún inniheldur.

Við erum stödd í Sikkim. Það er lítið hérað á norð-austur Indlandi og liggur að Vestur-Bengal í suðri, Nepal í vestri, Bútan, í austri og Tíbet(Kína fyrir þá sem kjósa að kalla það það) í norðri. Ég vona að þegar þið heyrið þessi lönd nefnd, dettur ykkur í hug einn samnefnari þeirra. Himalaya fjöllin. Sikkim liggur í hlíðum og hjarta Himalaya fjallanna. Það er eitt minnsta hérað Indlands að flatarmáli og einnig það fámennasta. Héraðið var konungsríki þangað til árið 1975 þegar það varð partur af Indlandi, Kínverjum til mikillar gremju. Höfuðborgin heitir Gangtok og liggur í suð-vestur hluta héraðssins. Flestir af íbúum Sikkim búa á þessu svæði, annað hvort í eða nálægt höfuðborginni. Ferðalöngum er frjáls að ferðast í suður-Sikkim, en sérstakt leyfi þarf til að ferðast til norðurs. Ástæðan er sú að landamæri Indlands og Kína eru viðkvæmt svæði hernaðarlega séð og þeirra er vel gætt af her Indlands. Þannig að ef maður ætlar að ferðast til norður-Sikkim þarf maður fyrst að útvega tilskilin leyfi og koma hernum í skilning um að maður er ekki njósnari á launum hjá Kínverjum, heldur einfaldlega saklaus túristi sem vill fá að sjá smá fjöll og náttúru.


Sikkim. Helstu vegir í norðri.

Í þessu bloggi ætla ég að lýsa fjögurra daga ferðinni okkar um þetta tiltekna svæði. Ég tel það ekki skynsamlegt að ferðast á einum vélfák um svo strálbýlt og harðneskjulegt landssvæði. Maður vill helst ekki að hjólið bili eða verði bensínlaust í 4000 metra hæð 100 kílómetra frá næsta þéttbýli. Ekki misskilja mig, ég er allur til í ævintýri, en ég vil helst ekki deyja úr hungri, þorsta eða kulda, og heldur vil ég keyra alla leiðina á mótorhjólinu en að þurfa að treysta á fætura eða villtan jakuxa. Þá er það útrætt. Hópur skal það vera.


Hópurinn í þessari tilteknu ferð samanstendur af eftirfarandi meðlimum:

Mér og Sigrúnu. Engin þörf á lýsingu ætla ég að vona.

Greg. Greg er belgískur að uppruna en hefur tekið ástfóstri við Indlandi og býr hér 6 mánuði á ári. Á strönd einni á suður-Indlandi hefur þessi ungi maður reyst gistikofa og selur grunlausum evrópskum ferðalöngum næturgistingu rándýru verði. Hann sér þó ekki um staðinn sjálfur heldur borgar áhugasömum og framapotandi viðskiptafræðingi 10.000 kr á mánuði fyrir að reka hann. Aðspurður segist hann vinna um 6 tíma á viku. Vinna er áhugamál sem hann hyggst stunda eins lítið og mögulegt er og ef allt gengur að óskum mun hann fara á eftirlaun eftir u.þ.b. fimm ár, þ.e. á svipuðum tíma og foreldrar hans. Greg er kjaftfor, hann talar án þess að hugsa en umfram allt elskar hann skyndibita, sér í lagi McDonalds og Burger King. Honum þykir ölið gott og helst vill hann ekki fara að sofa nema að hafa tóma bjórkrús undir koddanum.

Mike. Ástralskur ”ex-pat” sem bjó í London og stundaði húsasmíði áður en hann ákvað að gefa saur í það og fara að ferðast. Hann hefur ferðast víða, til Afríku, Suður-Ameríku og þvers og kruss um Asíu að ég held. Hann hefur meira að segja komið til Íslands í 10 daga og líkaði vel að eigin sögn. Mike er brosandi og þægilegur í umgengni. Hann er stór en lítur út fyrir að vera enn stærri. Hann lætur 180 kíló-a Royal Enfield hjólið sitt líta út eins og vespu þegar hann situr á því. Þrátt fyrir að hafa búið utan Ástralíu í nokkurn tíma er hann eins ástralskur og löðrandi kengúruborgari. Hann ofnotar orð eins og ”mate” og ”heaps” auk þess sem hann lifir fyrir krikket. Já það er íþróttin sem enginn skilur eða nennir að skilja nema þeir sem vilja keyra vinstra megin í umferðinni. Mike er enginn eftirbátur Gregs þegar kemur að bjórdrykkju. Hann þarf reyndar ekki bjór til að festa svefn, en byrjar heldur ekki að slefa og froðufella af ölvun eftir 3já, ólíkt Greg.

Auk þessa fríða hóps áváðu tvær stúlkur að slást í hópinn með okkur, þær Sangmo, heimakona sem rekur staðinn sem við gistum á, og Jenny, svissneskur/breskur doktornemi í mannfræði, sem skoðar samfélagsbyggingu Sikkim héraðs. Þessar tvær ákváðu þó að ferðast með bara stuttan og auðveldan hluta leiðarinnar og láta karlmönnunum(auk mér og Sigrúnar) eftir torvelda partinn.


Við byrjuðum í Gangtok. Eftir þrjá daga af bið annars vegar, og hlaupum fram og til baka milli stofnana hins vegar, vorum við komin með tilskilin leyfi til að leggja af stað. Planið var að vera í fjóra daga. Fyrsta daginn myndum við keyra frá Gangtok til Lachung. Annan til Zero Point og til baka til Chungtang. Þriðja til Lachen, upp til Tanghu og Chopta og aftur niður til Lachen til að gista. Fjórða og síðasta daginn myndum við bruna til baka til Gangtok. Ég vissi það áður en við komum til Sikkim að plön sem þetta halda sjaldnast. Ein af ástæðunum er sú að við höfðum einungis leyfi til að fara til Lachung og Lachen. Stofnanapakkið vildi ekki leyfa okkur að fara lengra. Margir heimamenn sem við töluðum við sögðu þó að við kæmumst lengra ef við vildum. Ástæðan er sú að á Indlandi er allt falt. Við þyrftum bara að múta okkur gegnum öryggishliðin.

Dagur 1. Gangtok til Singit, rétt eftir Mangan.




Mike og hjólið hans Greg(lengst til vinstri) í byrjun ferðalags.


Hjólafélagar voru Greg og Sangmo, Mike og Jenny og að lokum ég og Sigrún.



Hænur ferðarinnar. Jenny, Sangmo og Sigrún.

Úber haninn Greg, ásamt Sangmo og Jenny.


Vegurinn frá Gangtok var oftast góður og malbikaður. Stundum tóku þó við malarvegir og plankalagðar brýr.



Stuttu eftir að við lögðum af stað komum við að þessu skilti. Þarna hugsaði ég: “Það er að gerast. Ævintýrið er byrjað.”

Við stoppuðum oft á leiðinni. Jenny er mjög fróð um sögu Sikkim. Hér erum við að skoða einhvern minnisvarða um eitthvað merkilegt sem gerðist fyrir löngu. Fín hlandpása að mínu mati.




Þarfnast þetta lýsingar? Svona er drengurinn í hnotskurn.

Keðjan hans Mike þráaðist við að haldast á tannhjólunum.


Útsýnið var oft alveg stórfenglegt. Há fjöll, djúpir dalir og grænir skógar. Hvað getur maður beðið um meira?

Pásur. Þær eru alveg bráðnauðsynlegar. Maður stendur upp af hjólinu og leyfir rasskinnunum að krumpast til baka í sitt rétta form.


Hér sjást hjólin þrjú. Lengst til vinstri er hjólið hans Mike, þá okkar og loks Gregs hjól til hægri.


Fátt frásagnar-vert gerðist á fyrsta degi. Þegar við vorum orðin þreytt á að keyra og ákváðum að leita að gististað fyrir nóttina, fundum við þennan stað. Þar sem Sangmo er innfædd og talar þ.a.l tungumálið, þá enduðum við á að gista á sveitabæ einum hjá fjölskyldu sem átti aflögufært herbergi.

Þegar ég segi sveitabæ, þá skuluð þið ekki hugsa um 200 kúa róbotta-stýrt vélfjós, heldur þetta. Þetta er fjósið.


Feðgar.

Á bænum bjuggu hjón ásamt fjöldanum öllum af sonum en engum dætrum virtist vera. Ég veit ekki ástæðuna en á þessum stað í heiminum held ég að fólk vilji frekar syni en dætur þar sem ekki þarf að borga með sonunum þegar þeir giftast og þeir eru taldir geta framfleytt sér betur en dæturnar.

Það er skrítið hvernig það virðist vera regla í heiminum að þeim mun fátækara sem fólk er, þeim mun gjafmildara. Það ætti eiginlega að vera öfugt. Fólkið á þessum bæ vinnur sennilega tvisvar sinnum meira en við og á nánast ekkert umfram matinn sem það borðar og moldarkofan sem það býr í. Samt býður það, óumbeðið, okkur heim til sín og gefur okkur mat og húsaskjól. Hverjar eru líkurnar á að þeim yrði boðin sama þjónusta ef þau kæmu til Íslands?

Um kvöldið tendruðum við varðeld og drukkum ógrynni af bjór. Mér leið eins og ég væri 17 ára aftur.

Indverjar eru duglegir við að brugga bjór. Magnið segir þó ekkert til um gæðin og því miður smakkast flestar bjórtegundirnar hér eins og vatnsblandaður amerískur bjór. Ekki bætir úr skák að margir Indverjar virðast skilja setninguna ”Do you have cold beer?” sem ”Áttu bjór sem er búinn að standa lengi við stofuhita?”. Ekki er þó allt glatað í indverskum bjórmálum. Bjórinn á myndinni er nefnilega þrælgóður. Hann heitir HIT og á flöskumiðanum, sem lítur út fyrir að hafa verið hannaður í flýti af pelabarni sem á meðan var að gera númer tvö, stendur: HIT Super Strong. Alcohol level up to 8%. Þannig að það er svolítið lotterí hvort maður verði kenndur eftir 2 eða 5 bjóra. En bjórinn er góður eins og dæma má af svip Sigrúnar.


Ekki veit ég hvort Sangmo setur upp þennan svip reglulega eða hvort þetta var bara óheppilegur tími fyrir myndatöku. Hennar vegna vona ég það síðarnefnda.

Dagur 2. Mangan til Lachung.




Daginn eftir, eftir að við höfðum þakkað fyrir okkur hjá hinni mjög svo indælu fjöldskyldu, bilaði hjólið hans Mike. Greg, Mike og ég að hluta til reyndum hvað við gátum að laga hjólið. Okkar mjög svo frumstæða bilanagreining leiddi í ljós að eitthvað var að rafkerfi hjólssins. Við hittum nokkra hermenn, sem áttu leið hjá, og einn þeirra virtist vita eitthvað um mótorhjól. Eftir hálfrar klukkustundar fikt, sneri hann sér að okkur og lét okkur vita að því miður vissi hann ekkert um rafmagn. Ég skammaðist mín fyrir að vera að læra til meistaraprófs í rafmagnsverkfræði, en hafa litla hugmynd um hvernig rafkerfi í mótorhjóli, sem hannað var á sjötta áratug síðustu aldar, virkaði. Ég lét það vera að láta strákana vita af því. Þess í stað keyrði ég 5 kílómetra til næsta bæjar og náði í hæfan bifvélavirkja. Það tók hann 30 sekúndur að finna hvað var að, og aðrar 5 mínútur að laga hjólið. Í tilraunum okkar til að koma hjólinu í lag fólst að láta það renna í gang niður langa brekku, meðan stelpurnar biðu uppi. Meðan Mike var að tala við bifvélavirkjann fór Greg því og náði í Jenny og Sangmo. Við köllum það ”Indian style” þegar fleiri en tvær persónur sitja á einu hjóli.


Þar sem Jenny og Sangmo ætluðu aðeins að koma með til Mangan, var þeim hleypt af þar en við hin héldum síðan áfram í norður. Hér má sjá hvar verið er að gera við veginn, sennilega eftir grjóthrun. Það gerðist títt að við komum að svona vegatálma, og oft voru langar raðir af bílum að bíða eftir að komast leiðar sinnar. Hér kom hagkvæmnin af því að vera á vélhjóli klárlega í ljós. Með montsvip tróðum við okkur á milli bíla, steina og hrópandi fólks.


Ég veit ekki hvort það er bannað að birta svona klúrar myndir á alnetinu. Það getur verið að ég sé að særa blygðunarkennd kínverskra stjórnvalda og að ég endi á einhverjum svörtum lista. Það verður að hafa það. Þessi staður var eins og snobbuð bresk tedrykkjufrú myndi orða það: ”Lovely”. Niðandi fossar og lítil laug sem hægt var að vaða í. Greg stakk sér til sunds og hrópaði eins og smástelpa undan köldu vatninu, en ég lét mér nægja að bleyta hausinn.


Sami staður frá öðru sjónarhorni. Hjólið hans Greg til hægri, og Mike til vinstri.


Rétt fyrir neðan þessar brýr var fyrsta öryggishlið ferðarinnar þar sem við þurftum að sýna tilskilda pappíra. Það gekk greitt fyrir sig og við gátum haldið áfram. Við tók einn sá versti vegur sem ég hef augum litið.


Sagan er sú að verið var að leggja nýjan veg. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í næstu myndir. Þær lýsa sér sjálfar. Þetta var ein skemmtilegasta leið sem ég hef keyrt. Því verri vegur, því áhugaverðari leið að keyra.


Ýndislegt


Ég er lofthræddur. Ég ætla ekkert að reyna að leyna því. Oft tuggði ég ofan í sjálfan mig setningar eins og: ”Ekki horfa til hægri, horfðu bara áfram” og ”þú ert stór strákur Loftur, stór strákur”.


Ég var ekki einn um að njóta keyrslunnar.


Þessi vegur held ég að hljóti falleinkunn, jafnvel þótt maður noti rússneska vegi til viðmiðunar.


Stoppa. Meta aðstæður. Bíða? Nei. Troða sér!


Eftir langan og strangan kafla komum við lokssins til bæjarins Chungtang. Horfði maður niður og til vinstri frá veggnum sem Greg og Mike hafa stansað við, sá maður yfir lítinn og skítugan bæinn. Bærinn var samt ekki það sem erti augað mest, heldur stíflan. Yfirvöld í Sikkim virðst nefnilega vera að virkja allar sprænur héraðssins, og gefa síðan orkuna til annara héraða á Indandi. Í gegnum Chungtang rennur áin Tiesta og hana er verið að virkja. Hér á, eftir að ég held tvö ár, að rísa virkjun með framleiðslu upp á 1200 MW. Fyrir þá sem ekki skilja tölu eins og þessa, þá er Kárahjúkavirkjun um 690 MW. Ég skil ekki alveg af hverju en á einhvern óskiljanlegan hátt ljáðist mér að taka myndir af bænum eða stífluframkvæmdunum.

Mike að skoða stíflusvæðið. Það blasir við beint framundan, þegar horft er niður af veggnum.


Við höfðum meðferðis kort af Sikkim, og þar var greinilega merkt inn bensínstöð í Chungtang. Þegar við hinsvegar spurðumst fyrir um hana kom hinsvegar í ljós að ekkert bensín var að fá. Í Mangan var bensín, það vissum við, en við höfðum ákveðið að geyma það að fylla á þangað til í Chungtang. Aðgengi í Chungtang að dísilolíu var hinsvegar auðvelt, þar sem herinn notar hana á flest, ef ekki öll sín ökutæki. Nú voru góð ráð dýr. Við kíktum ofan í tankana okkar. Bensínmælar eru ekki eitthvað sem hönnuðir Royal Enfield hjólana töldu mikilvægt. Tankarnir okkar allra voru um hálffullir. Við myndum aldrei ná að keyra til Zero Point, til baka til Chungtang og síðan til Chopta, og að ég tali nú ekki um til baka til Mangan, með þessar birgðir af eldsneyti. En við vorum heppin. Við hittum vingjarnlegan heimamann sem bauð okkur inn til sín í te. Kunningi hans var reiðubúinn að keyra til Mangan, fylla 20 lítra brúsa af bensíni og koma með daginn eftir. Nú gætum við keyrt til Zero Point, og komið til baka, fyllt hjólin og haldið áfram til Chopta. Við ákáðum að stoppa stutt í Chungtang og halda áfram áleiðis til Lachung. Á myndinni er Greg að virða fyrir sér einn af óteljandi fossum á leiðinni. Þessi mynd er tekin skömmu eftir Chungtang.


Frá Chungtang til Lachung vorum u.þ.b 30 kílómetrar. Hér er Mike að virða fyrir sér útsýnið yfir dalinn sem liggur milli ofannefndra bæja.



Indverskir vegagerðarmenn hafa húmor. Swastik er fyrirtækið sem sá um að leggja veginn sem við keyrðum um. Ég skil meininguna bak við þetta skilti. En ég verð að segja að orðalagið finnst mér í meira lagi undarlegt.


Annað skilti sem fékk okkar óskiptu athygli. Ég veit ekki hvað femenistar Íslands myndu segja ef þeir rækust á skilti sem þetta á þjóðvegi nr. 1.

”Konur! Hættið að slúðra eða gaspra, og leyfið körlunum að keyra!”





Við komum að fallegum fossi. Hann hefði verið enn fegurri ef það hefði ekki verið fyrir alla jeppa-pakka túristana með myndavélarnar sínar. Maður verður þreyttur á að þurfa alltaf sitja fyrir, setja upp Ólafs Ragnars brosið og svara hefðbundnu spurningunum um hvort manni líki vel á Indlandi, hvað maður heiti, hvort það sé nú ekki kalt á Íslandi og að maður sé ekki snobbaður bissnissmaður heldur fátækur námsmaður.


Í keppninni um hver á flottasta hjálminn, þá held ég, umhugsunarlaust, að Mike vinni. Hans hjálmur er svipaður og flugmenn notuðu í fyrri heimstyrjöldinni, og gleraugun í stíl. Þegar Greg, með lokkana sína, setur upp sinn hjálm, dettur manni í hug heysáta með litla öfugsnúna súpuskál á toppnum. Hjálmurinn hans virðist nefnilega ekki sitja á höfðinu hans eins og venjulegt er, heldur á hárinu. Og þar er mikill munur á. Þegar ég með minn hjálm, set upp fake-RayBan-pilot gleraugun mín, finnst mér ég líta ég út eins og risavaxin býfluga. En öryggi er númer eitt, ekki útlit. Ég held að ég, Sigrún og Mike séum ágætlega sett þar en Greg er í annari deild. Ég efast um að hjálmurinn hans geri meira gagn en plastpoki. Hann virðist bara vera til þess fallinn að sleppa við sekt frá löggunni.


Fossinn er fallegur, ég sagði ykkur það. Ástirnar mínar tvær, Sigrún og hjólið, skemma ekkert fyrir.


Smá pása til að teygja úr sér, rétt áður en komið er til Lachung.


Komin til Lachung. Þessi litli gutti gat ekki tekið augun af hjólunum. Hann prílaði upp á þau, gerði vélhljóð með meðfylgjandi frussi, og þóttist taka þátt í París-Dakar keppninni. Hvaða hjól leist honum best á? Þetta rauða í miðjunni. Að sjálfsögðu.


Einn af heimakrökkunum í Lachung að leika sér að plastflösku.




Við fundum okkur notalegt gistihús með litlu einsmanns herbergi sem við, öll fjögur, tróðum okkur í. Við fengum tvö rúm. Eins og gefur að skilja var það ekki mikið vandamál fyrir okkur Sigrúnu að gista í sama rúmi. Mike, á hinn bóginn, leist illa á að þurfa að deila rúmi með durgnum Greg. Það kom líka í ljós að um nóttina notaði Greg 75% rúmssins og eftirlét hinum stóra Mike hin 25%-in. Greg reyndi líka, án ásetnings vona ég hans vegna, að smeygja fætinum yfir Mike, honum til augljósrar gremju. Hér erum við á þaki gistihússins, með bjór og tilgerðarlegt bros.


Þið þurfið ekki að örvænta. Hann er er ekki dauður. Þetta var bara uppstilling fyrir myndavélina.


Fólk í Sikkim, sem ekki á ráð á vörubíl, pallbíl eða jafnvel hjólbörum, notar þessa tækni. Í höfðuborginni Gangtok flytur fólk allan fjandan á hausnum, sófa, kommóður og jafnvel heilu búslóðirnar, rotþrær og bara flest sem þarf að flytja frá stað A til B.


Góðar stundir á þakinu. Hér er Greg að reyna að fá Sigrúnu til að dansa hinn svokallaða búgí dans. Hann er dansaður við lag sem er svona:

Búgí búgí,
út á gólf,
fyrir þá,
sem vilja dansa.

Þessi vel orta ríma ætti klárlega að koma til greina ef við Íslendingar einhvern tíman ákveðum að skipta um þjóðsöng.

Það gekk hins vegar illa að kenna Greg að bera fram þessi einföldu orð. Á sinni fésbók hefur hann sett fram textann eins og hann heldur að hann sé, og ég ætla að vitna í hann hér.


Hann segir: bougie bougie, tessa golf, mustazen, bergrgen la danca.

Þrátt fyrir að eiga erfitt með íslensku tunguna, þá vippaði hann Sigrúnu út á frumstætt dansgólfið og reyndi að kenna kenna henni sína útgáfu af dansinum.


”Já þú stígur fram í vinstri fót, tekur síðan skref afturábak og hendir þér síðan í átt að mér, og ég skutla þér upp í loftið.” Einfalt?


Alls ekki. Sigrún og Greg virtust ekki vera í sama tímarúmi. Það var eins og Greg lifði alltaf hálfri sekúndu á undan Sigrúnu, og danssporin sem áttu að fylgja í kjölfarið, liðu stórkostlega fyrir það.



Við fundum stað þar sem borinn var fram matur, þó ekki fyrr en eftir klukkustundar bið. Kokkurinn, og jafnframt guttinn sem sá ekki sólina fyrir hjólunum okkar, gaf Greg frítt nudd. En indælt af honum.


Ég veit ekki hvað Mike bað um, en hann fékk þetta í staðinn.

Dagur 3. Lachung til Zero Point, og Zero Point til Chungtang.


Þegar við komum til Lachung daginn áður, var þoka yfir öllu og við sáum ekki fjöllin sem við vissum að væru allt í kring. Við vöknuðum snemma, uppúr klukkan 5 og þetta var útsýnið af þaki gistihússins. Ískalt, heiður himinn og spennandi dagur framundan. Af myndinni er engan veginn hægt að átta sig á hvernig tilfinning það var að stara á snarbratta og snæviþakta tindanna. Við vorum ekki lengur í hlíðum Himalaya-fjallanna, við vorum í hjarta þeirra. Ég hef komið til Alpafjallanna margoft og ég man þegar ég sá þau í fyrsta skipti. Þá var ég 12 ára og kom keyrandi frá suður-Þýskalandi. Hægt og rólega sá maður þau tignarlega rísa í fjarska. Ég gleymi því seint. Þessi fjöll voru af annari stærðargráðu. Í allar áttir stóðu þau ruddalega uppúr umhverfinu, eins og þau væru að segja: “Þú átt ekki heima hér. Snúðu við.” Lachung var, svo ég vitni í rithöfundinn Bill Bryson, staður þar sem menn eru menn, og kindur eru hræddar.


Við lögðum af stað fyrir sólarupprás. Það var mögnuð sjón, þegar sólin hægt og rólega reis bak við fjöllin, og lýsti upp dalinn í gegnum morgunþokuna. Næstu myndir þurfa enga lýsingu.









Einmanna jaxuxi. Honum var ekki vel við myndavélar þessum.


Vegirnir upp snarbrattar hlíðarnar lágu oft í kröppum hlykkjum og gerðu keyrsluna enn áhugaverðari.





Ykkur rámar kannski í að við áttum ekki mjög mikið eldsneyti þegar við lögðum að stað frá Chungtang. Stuttu eftir að ferðin frá Lachung hófst, þá var eitthvað að hjólinu hans Mike. Við Sigrún og Greg höfðum keyrt lengra, og áttuðum okkur allt í einu á að Mike var hvergi sjáanlegur. Við stoppuðum í nokkrar mínútur og biðum, en hann lét ekki sjá sig. Þannig að við snérum við og leituðum hans. Skömmu seinna komum við að honum stöðvuðum í vegkannti. Hann veifaði flatri hendi fyrir hálsinn á sér, merkið sem maður gerir þegar eitthvað er dautt. Ég hugsaði með mér hvað gæti mögulega verið að, og að þetta væri eiginlega ekki besti staðurinn fyrir biluð ökutæki. Mike tjáði okkur að hjólið hans væri bensínlaust. Hvernig gat það verið? Hann var með stærsta eldsneytistankinn af okkur öllum, 22 lítra, og hann hafði verið hálffullur í Chungtang rétt rúmlega 30 kílómetrum neðar í dalnum. Það var augljóst að hjólið hans svolgraði í sig bensíni eins og Greg teygar bjór. Þetta var ekki gott. Við Greg höfðum nefnilega litið svo á að ef okkar hjól yrðu bensínlaus, þá gætum við alltaf sótt í aukabirgðarnar hans Mike. En það var fátt að gera. Þeir fengu leyfi til að stilla hjólinu upp undir húsþaki nálægrar herstöðvar. Nú þyrfti Mike að sitja aftan á hjá Greg, og því var bakpokinn hans Greg skilinn eftir hjá eldsneytislausa hjólinu. Þess má geta að varahlutirnir sem Greg ávallt bar með sér, voru í bakpokanum. Áður en ég held áfram ætla ég að vitna í lögmál Murphy. Það hljóðar svo: Allt sem getur farið úrskeiðis, mun gera það. Þessari ferð var ekki hlíft bið boðskap lögmálssins. Hálftíma eftir vandræðin með hjólið hans Mike, þá slitnaði inngjafarkapallinn í Gregs hjóli. Það er vírinn sem tengir inngjöfina, það er handfangið sem maður snýr með hægri höndinni, við blöndunginn. Þegar handfanginu er snúið, eykst snúningur vélarinnar. Það er augljóst að án þessa mikilvæga vírs gerist fátt nytsamlegt. Það kom í minn hlut, og ég var þegar orðinn hættulega eldsneytislítill, að keyra til baka þessa 5 snarbröttu kílómetra, ná í vírinn sem auðvitað var í bakpokanum, og koma með hann til baka. Þetta gerði ég, hjólið fór í gang, og við héldum áfram, lengra inn í óbyggðirnar.


Oft keyrðum við í gegnum litlar sprænur sem þessar. Það sem maður gerir, ef maður er ekki mjög vatnssækinn, er að lyfta upp fótunum og láta vaða.


Við Greg vorum í keppni um hvaða mynd væri best fyrir Royal Enfield auglýsingu, eða “Royal Enfield publicity”, eins og Greg var vanur að segja, með sínum bjagaða belgísk-franska hreim. Hann átti nokkrar efnilegar myndir, en varð að lokum að játa sig sigraðan, þegar ég sýndið honum þessa.


Við komum að þessum indæla griðastað. Hér mitt í þessari hrjóstrugu og einmannalegu auðn, voru örfáir kofar, þar sem hægt var að kaup HIT bjór, kók, heita núðlusúpu og sitthvað fleira. Við stoppuðum í um klukkutíma, komum okkur fyrir í einum kofanum, keyptum okkur rjúkandi Maggi núðlusúpur og spjölluðum við tælenska túrista á, að við héldum, þeirra eigin tungumáli. Nú laug ég. Það var Greg sem kunni að segja halló og takk og túristarnir hlógu. Þetta var allt og sumt.


Fyrir utan einn kofann.

Í þessari ferð tók Greg ásfóstri við drykkinn Bacardi Breezer Passion Fruit. Hér er hann að panta einn slíkan, meðan Mike ákvað að halda sig frá áfenginu. Greg gat aldrei látið nægja að segja “I´ll have coke, a sigarette and a breezer.” Hann þurfti alltaf að bera fram allt nafnið, eins og stelpan í afgreiðslunni ætti fjöldan allan af mismunandi og framandi tegundum af breezer. “I´ll have coke, a sigarette and one cold Bachardi breezer passion fruit please”.



Þetta virtist vera samgöngumáti héraðssins. Ég held að Íslendingar ættu að hætta kvarta undan Strætó.


Þegar gengið var niður frá núðlukofunum, tók við þessi skemmtilega brú. Fátt meira um það að segja. Skemmtilegt mómemt.


Kofinn þar sem við keyptum okkur gervimatinn og hittum tælendingana.




Greg og Mike, sáttir en ennþá svangir eftir ljúffengar núðlusúpur.


Hér erum við komin fram hjá Yumtang. Þótt að fjöllin voru virkilega stórfengleg þá vakti bærinn og fólkið í Yumtang vonbrigði. Eða kannski er mín skoðun á bænum og fólkinu svolítið flekkuð út af einum bæjarbúanum. Það spurðist út að hjólin okkar voru óþægilega endsneytislítil. Einn tappinn í bænum sagðist eiga bensín. Ég spurði hvort við gætum keypt svolítið af honum.

Hann: Já ekkert mál, hvað viltu mikið?
Ég: Kannski 10 lítra.
Hann: Þú færð bara fimm.
Ég: Ok, ég tek það.
Hann: Það verður dýrara en venjulega.
Ég: Hvað viltu fá fyrir það?
Hann: Það verður dýrt.
Ég: Ég skil, en segðu mér verðið.

10 heilar mínútur liðu og þá var samtalið búið að þróast í þessa átt.

Hann: Það verður dýrara en venjulega.
Ég: HVAÐ VILTU AÐ ÉG BORGI ÞÉR FYRIR HELV…. BENSÍNIÐ?
Hann: Þú færð bara fimm lítra.

Ég gafst upp, rauður í framan. Ekkert bensín. Bara kjaftur.

Nú þurftum við að meta stöðuna. Við kíktum í tankana okkar. Ég tel mig hafa gott jafvægi milli ævintýraþrár og skynsemi, og benti á að mjög líklega myndi bensínið ekki duga til Zero Point og til baka til Chungtang. Jafnvægið milli þessara tveggja þátta hjá Greg er eitthvað brenglaðra. Hann lagði til að við myndum bara keyra og sjá til hvað gerðist og að þetta myndi reddast. Að sjálfsögðu var þetta það sem við gerðum.




Keyrt frá Yumtang. Við vorum ekki með leyfi til að keyra lengra, og vissum að brátt myndum við lenda á öryggishliði og ef við ætluðum að halda áfram yrðum við að múta okkur í gegn.

Við lentum á hliðinu. Vörðurinn tók ekki í mál að við myndum halda áfram. Ég var eiginlega feginn. Ég vildi ekki verða bensínlaus í þessari miskunnalausu auðn. Við lögðumst niður og mátum stöðuna. Það var eiginlega fátt annað að gera en að snúa við. Við hugsuðum með okkur að það væri svekkjandi að vera búin að keyra alla þessa leið, vera búin að éta okkur í gegnum alla rjómatertuna og fá bara að þefa af kirsuberinu á toppnum, Zero Point.



En hvernig stendur þá á því að við Greg erum svona skælbrosandi? Vorum við svona yfir okkur ánægðir að fá ekki að halda áfram?

Svarið er nei. Þessi mynd er tekin á toppgrind jeppa. Þannig var mál með vexti að þegar við vorum u.þ.b. að fara að leggja af stað til baka, þá heyrði ég kunnulega rödd sem fylgdi murri í jeppavél. Mér til mikillar furðu var þarna kominn leiðsögumaður sem fór með hóp af fólki í jeppa sömu leið og við höfðum keyrt. Það var reyndar ekki það sem var merkilegt, heldur að þessi tiltekni maður gerði út frá hótelinu sem við öll gistum á, og ég hafði spjallað við hann nokkrum dögum áður. Við grátbáðum hann um að tala við öryggisvörðinn, og fá hann til að hleypa okkur með. Þeir fóru saman inn í tjald. Augnabliki seinna kemur Búdda, það var nafn leiðsögumannsins, út og segir “Let´s go”. Frábært. Við myndum þá sjá Zero Point eftir allt saman. Við hrúguðum okkur inn í bílinn, og þegar öryggisvörðurinn var kominn úr augnsýn, þá vippuðum við okkur upp á toppgrind bílssins og fengum besta útsýnið. Búdda sagði mér seinna að vörðurinn hafi verið giftur einhverri frænku hans, og þess vegna var þetta ekkert mál. Hann þáði ekki einu sinni mútur fyrir.


Útsýnið var stórbrotið og góð stemming í hópnum. Eins og ég sagði reyndar áður, þá er ég lofthræddur. Ég sat óþægilega á hægri helmingi toppgrindarinnar og verð að segja að maginn í mér snerist í hringi þegar við fikruðum okkur löturhægt meðfram fjallsbrúnunum, með nánast lóðrétta hlíð beggja vegna bílssins, upp vinstra megin og niður hægra megin. Eitt sinn gerðist það að við vorum í þessum aðstæðum, og ég var að horfa niður til hægri í það sem mér fannst vera opinn dauðinn. Skyndilega lendir bíllinn í ójöfnu og sveiflast til hliðar. Hægri hliðar. Minnar hliðar. Nú held ég að ég viti hvernig tilfinning það er fyrir hjartveika þegar dælan bilar. Ég vona að ég eigi nokkur ár eftir áður en þessi tilfinnig lætur finna fyrir sér aftur.


Af toppi bílssins.


Snarpri hæðaraukningu fylgja annað hvort lyftur eða þetta, hlykkjóttir vegir.





Zero Point. Við náðum því. We made it, geschafft, færdig. 4800 metrar yfir sjávarmáli eða 15748 fet fyrir krikket fólkið og vesturfarana. Við vorum hæstánægð.


Zero Point. Þvílíkt nowhere. Þetta staðurinn sem hvergi-ð fer þegar það þarf að komast í burtu og finna frið.


Nafnið Zero Point kemur til af því að hérna endar vegurinn. Maður kemur lullandi í ökutækinu sínu og skyndilega BAMM. Hvert fór vegurinn? Hann hverfur bara. Hinum megin við fjöllin á myndinni er Tíbet og svæðið er vel vaktað af herjum beggja landa, Indlands og Kína. Leiðsögumaðurinn Búdda sagði að árið 2012 fellur friðarsamkomulag, sem stórveldin gerðu með sér, úr gildi. Samkvæmt Búdda hafa Kínverjar krafist að fá fyrir þann tíma annað tveggja, Dalai Lama eða Sikkim hérað. Ég veit ekki hvað gerist ef Indverjar verða ekki að þessum óskum, og ef þetta er satt þá hef ég ekki hugsað mér að eyða árinu 2012 í að slappa af og njóta útsýnissins í Himalaya fjöllunum. Eru ekki einhver trúarbrögð sem spá heimsendi árið 2012? Kvikmyndin 2012, sem ég tek sem mjög áreiðanlegri og vísindalegri heimild, gerir einnig ráð fyrir þessu.


Hermennirnir voru duglegir við að sinna skyldum sínum. Skyldurnar virtust felast í að heilsa og taka myndir af okkur hvítingjunum. Stundum þegar ég horfði á þessa lítt öguðu hermenn, þá datt mér frekar í hug að þeir væru túristar í feluleik, þannig létu þeir.


Í dag er rosa “inn” að vera eco-túristi. Hér er Mike að gera umhverfinu greiða með að brenna rusl sem einhver hafði skilið eftir.



Hér erum við elta hermennina. Þeir eru að fara að ryðja leið, sem hafði lokast nýlega vegra grjóthruns. Leiðin lá að hver sem hægt var að baða sig í.


Ég átti erfitt með að átta mig á goggunarröðinni meðal hermannanna. Þeir virtust allir gegna einhverri yfirmannstöðu, ef eitthvað var að marka tóninn sem þeir notuðu til að hrópa. Hér má sjá Búdda í forgrunni. Hann var ekki hermaður, bara klæddur í felubúning.


Þetta var grjótið sem hindraði umferð um veginn. Það var merkilegt, hermennirnir ásamt Mike ýttu, toguðu, hrópuðu og blótuðu, þegar steinninn vildi hvergi fara. Eftir u.þ.b. 15 mínútur af ónauðsynlegri fitubrennslu bætist ég í hópinn og voila, steinninn trítlaði burtu eins og lítið lamb. Það getur verið að þessi frásögn sé skreytt að hluta til mér í hag, en svona fannst mér atburðarrásin vera.


Maður hefði alveg eins geta verið staddur í Kerlingafjöllum. Fjöll, grjót, mosi og heitir hverir.


Nú var kominn tími til að halda til baka til Chungtang. Það hvort bensínið myndi duga, það gat enginn sagt neitt um. Dagur var að kveldi kominn, eins og fólk mér eldra og spakara segir. Við vöfðum okkur inn í teppi, meðan við keyrðum niður, fyrst að hjólinu hans Mike, og seinna alla leið til Chungtang. Ég tappaði um einum lítra af mínu hjóli og gaf Mike. Sigrún keyrði frá Yumtang og langleiðina til Lachung. Það gekk mjög vel framan af, en í einni beyjunni varð hún fyrir því óhappi að læsa framhjólinu. Þegar það gerist er mjög erfitt að halda stjórn á hjólinu. Hjólið lagðist á hliðina og við einnig. Lítil sem engin umferð var um vegin þegar þetta gerðist og hraðinn var ekki mikill og þar af leiðandi sluppum við ómeidd frá þessu litla óhappi. Hjólið hins vegar þjáðist, og þjáist enn af speglaleysi vinstra megin.


Komin til Chungtang á síðustu bensíngufunum. Við vorum fegin að maðurinn sem við gáfum bensínpening daginn áður eyddi honum ekki í konur og spilamennsku, heldur eldsneyti handa okkur. Við fengum 20 lítra af ilmandi lífsvökvanum. Okkar hjól fékk 5 lítra, sömuleiðis Gregs hjól, og Mike síðustu 10 af fyrrgreindum ástæðum.


Við fundum okkur veitingastað þar sem við fengum okkur hin fræga Hit bjór. Við Sigrún fengum okkur einnig einhvern óspennandi grænmetisrétt, meðan Greg og Mike gæddu sér á útrunnu og sennilega frussukúks-valdandi lambakjöti.


Nú var komið að því að finna gistingu. Við spurðumst fyrir á báðum gististöðum bæjarins, en þeir áttu engin herbergi laus. Hvað gerir maður, ef maður vill alls ekki keyra lengra sökum myrkurs og ölvaðra vörubílstjóra, en finnur síðan engan gististað? Á maður að leggjast á götuna eins og heimilisleysingi? Við reyndum að fá að sofa á gólfinu á veitingastaðnum, en það vakti ekki mikla lukku hjá eigendunum. Við fórum til baka til vingjarnlega mannsins sem hafði gefið okkur te og reddað okkur bensíni. Hann hugsaði sig um smástund og sagði síðan að við gætum gist, án endurgjalds, uppi á hæðinni í húsinu við hliðina á musteri bæjarins. Það var eins konar vöruskemma, og þar voru teppi sem hægt var að nota sem undirlag. Þessi skemma var notuð sem næturstaður þegar Tiesta áin flæddi yfir bakka sína í monsoon tímabilinu og þorpsbúar urðu smeykir um að hús þeirra færu undir vatn.

Frí gisting? Já takk. Ég myndi frekar velja fría gistingu á þessu kalda steingólfi í þessum útnára í þessum frábæra hluta heimssins, en 5 stjörnu hótel í hjarta Kaupmannahafnar.

Dagur 4. Chungtang til Lachen, og Lachen til Gangtok.


Daginn eftir ákváðum við að skreppa til Lachen, fá okkur morgunverð, sem varð að hádegisverði sökum syfjaðrar þjónustukonu, og bruna síðan til baka til Gangtok. Vegabréfsáritunin hans Greg var nefnilega að renna út, og við máttum ekki við neinum löngum töfum. Auk þess voru 20 lítrarnir af eldsneyti sem við fengum daginn áður, ekki nóg til að fara alla þessa leið. Bensínið hefði sennilega nægt hefði hjólið hans Mike ekki látið eins og flóðhestur í vínsmökkun. Við sættum okkur við þetta og lögðum af stað frá Chungtang.

Ég er ekki vel kunnugur meðal hinna mörgu og sértæku orða íslenskrar veðurfræði, en súld er orð sem ég að lýsti veðrinu vel þennan daginn. Ég man allaveg þegar ég var patti að bíða eftir snjónum, þegar gráa sviplausa veðurfræðikerlan í sjónvarpinu ældi þessu fræðiorði útúr sér dag eftir dag, eins og hún væri persónulega að hefna sín á mér.



Veðrið var kannski ekki eins og best var á kosið náttúran, umhverfið og vegurinn bætti upp fyrir það.


Hinum megin brúarinnar.



Leiðin til Lachen var ekkert síðri en hinar sem við keyrðum dagana áður.


Lachen.

Við mættum um klukkan 8 um morgun og enn og aftur urðu núðlusúpur það eina sem við fundum sem gat talist að einhverju leiti skylt við mat.


Ný greiðsla?


“Stranglega bannað er að henda rusli í ræsið. Þér verður refsað ef þú sést gera það.” Fólk hlýtur að henda rusli þangað mjög laumulega, ef það er satt sem stendur á skiltinu.


Við fengum að lokum núðlurar okkar, og brunuðum síðan í átt til Gangtok. Sigrún hafði spurt hermenninna daginn áður hvar hægt væri að kaupa hermannaskó sem henni leyst vel á. Þeir bentu henni á hersvæðið sem lúrir bak við trukkinn á myndinni. Skórnir sem hún varð svo hugfangin af dagin áður voru vandaðir leðurskór, en hermennirnir hér áttu bara til ljóta plastskó. Við söltuðum þessa hugmynd, en spurðum hvort við gætum keypt fjóra AK-47 riffla, nokkrar handsprengjur og kannski eins og eina sprengjuvörpu. Hermanninum sem ætlaði að selja okkur platskóna fannst þessi athugasemd ekkert sérleg fyndin. Ég gaf mig á tal við manninn sem sat í bílstjórasætinu á trukknum á myndinni. Ég spurði hann first hvort ég mætti koma upp í trukkinn, og síðan hvort hann vildi skipta á honum og hjólinu okkar. Hann játti fyrri spurningunni en svaraði hinni með brosi. Ég prílaði upp í bílinn og fannst gaman. Það fór vel á með þessari uppákomu og áhuga mínum á rússneskum hertrukkum. Einn daginn ætla ég mér að kaupa svona tæki og innrétta skelina aftan á sem litla færanlega íbúð.


Á leiðinni til baka til Gangtok.


Nokkur feimin þorpsbörn.


Þið munið kannski eftir veginum milli Chungtang og Mangan? Nú var hann orðinn miklu verri því í millitíðinni hafði rignt feikimikið. Það var engin leið fram hjá þessum tiltekna polli. Hann leit sakleysislega út, en þegar hjólið var komið í hann miðjan, þá hossaðist það niður um að mér fannst hálfan metra.



Mér leið eins og æstum krakka á Rítalíni í þessum pollum og drullu. En þar sem við vorum tvö á hjólinu, og allar ójöfnur refsta þeim mun meira, sem situr aftan á, þá þurfti ég að halda aftur að mér. En þá freistingu sem þessi tiltekni pollur var, hana stóðst ég ekki. Ég bað Sigrúnu vinsamlegast um að stíga af hjólinu, nú væri kominn leiktími fyrir stóru strákana. Boys will be boys, geri ég ráð fyrir. Ég tók tilhlaup og lét vaða útí pollinn líkt og stóðhestur með eistun flækt í gaddavír. 10 sekúndum seinna leit ég niður sá að ég hafði ennþá allamína útlimi og hugsaði að tveir plús tveir vorum ennþá fjórir. Af þessu dró ég þá ályktun að ég var ennþá í heilu lagi, líkamlega og andlega. Allt var eins og það átti að vera. Ég hafði gjörsamlega misst stjórn á hjólinu þegar í pollinn var komið, en fyrir einhverja guðlega íhlutun tókst mér að halda í hjólið. Úff þetta var gaman. Því miður er bara til myndband af því þegar ég kem til baka, ennþá ringlaður og að reyna að átta mig á því sem hafði gerst. Það er á fésbókinni.


Á leiðinni til baka. Rétt fyrir Mangan held ég. Af hverju hef ég aldrei reynt fyrir mér sem módel? Maður spyr sig.


Við að plana heimsyfirráð.


Vegna áðurnefndrar rigningar, þá gerðist það þónokkrum sinnum, að við komum að grjóthruni sem þessu. Bílarnir þurftu að bíða, oft örugglega í fleiri klukkutíma, en við tróðum okkur alltaf framhjá.


Mike að svindla sér fram hjá.


Lítið vel á myndina hér að ofan. Þegar við komum akandi hinum megin frá var ekkert grjót þarna á miðjum veginum. Við komum inn í beygjuna, ég heyri skruðninga útundan mér, lít upp til vinstri í áttina sem hljóðið kemur frá, og sé litla steina koma rúllandi niður brekkuna. Ég hugsa: “Þetta er ekki gott” og reyni að halda ferð minni áfram. Augnabliki seinna gjóa ég augunum aftur upp á sama stað, og sé þá þennan klett koma með morðhug, svífandi niður hlíðina, beint í áttina að okkur, eins og hann hafi beðið eftir að einmitt við myndum keyra hjá. Ég hafði, eins og Sigrún orðaði það seinna, ekki tíma til að hugsa og verða hræddur, heldur gaf hjólinu inn af öllum krafti. Ég hélt inni í mér andanum, meðan ég beið eftir að steinnin myndi klessa inní hliðina á okkur. Það gerðist ekki og ég náði andardráttunum sem ég skuldaði. Greg hafði keyrt á undan og snúið við þegar hann heyrði óhljóðin, en Mike var á eftir okkur. Um leið og ég vissi að steinninn hafði ekki hæft okkur, hugsaði ég til Mike. Sem betur fer hafði hann beitt sínu ástralska hugviti og stoppað í tæka tíð. Grjótið stöðvaðist beint fyrir framan trýnið á honum. Mike sagði að u.þ.b. hálfur metri hefði aðskilið okkur og grjótið þegar minnstu mátti muna.

Áhyggjufullum ættingjum og kunningjum ætla ég að segja að steinninn hefði sennilega ekki drepið okkur, en sennilega dældað duglega bæði hjólið og neðri búkinn á okkur.

Þetta var það síðasta markverða sem gerðist áður en við komum aftur til Gangtok.

Ég á seint eftir að gleyma þessari ferð og hópurinn er þegar farinn að hugsa til næstu ferðar. Við erum búin að ákveða að hittast aftur í mótorhjólaferð, og það eru þrír staðir sem koma til greina.

Ástralía.
Ísland.
Norðvestur Indland.

Hver veit hvað gerist? Sjáum til.

Loftur







6 comments:

  1. Djöfull öfunda ég ykkur. Þú ert snilldar penni Loftur!

    kv. Kári

    ReplyDelete
  2. ég er sammála kára, algjör snilld þessi texti, vissi ekki að þú værir svona mikill rithöfundur í þér, og ég öfunda ykkur líka sjúskalega mikið

    ReplyDelete
  3. Sammála ofangreindum mikið rosalega er gaman að lesa þetta og þá trúlega ennþá skemmtilegra að upplifa þetta. Haldið áfram að hafa það frábært ;-)
    Kveðja Kolla

    ReplyDelete
  4. Hallo ihr Indienfahrer,toll,was ihr alles erlebt (bis auf den Stein)!Du schreibst wirklich gut,Loftur, scheint dir auch Spass zu machen, der Länge nach zu urteilen...Ich weiss noch gut, wie du die Alpen zum erstenmal gesehen hast und kann mir ungefähr vorstellen,wie du den Himalaya erlebst.Freut mich für euch, macht weiter so und kommt heil zurück ;) Liebe Grüsse und Gott befohlen,eu

    ReplyDelete
  5. Vá þetta er bara geðveikt.
    Gaman að lesa þessa færslu, en varð nú skíthrædd um ykkur 2x í lestrinum. Vona nú að þið komist heil og höldnu heim aftur:)
    En æðislegt að hafa svona myndablogg. Mig er farið að hlakka til að heyra allt um ferðina þegar ég hitti þig loksins Sigrún.
    hafið það súber gott og góða skemmtun:*:*
    -Svana

    ReplyDelete
  6. Takk fyrir kommentin kaera folk! Helgi: Eg baud ther ad koma... tu hefdir getad verid herna....

    ReplyDelete